Hann hét því að allir peningar sem söfnuðust færu í að reisa múrinn en hann er sakaður um að hafa gefið tveimur ónefndum aðilum hundruð þúsund dala sem söfnuðust.
Bannon hefur verið ákærður fyrir svik og fjárþvætti vegna þessa.
Alríkissaksóknarar höfðu áður ákært Bannon vegna sama máls og sökuðu hann um að hafa stolið rúmri milljón dala frá fjáröfluninni. Eitt af síðustu embættisverkum Donalds Trumps sem forseti Bandaríkjanna var hins vegar að náða hann.
Sú náðun nær þó eingöngu til alríkisyfirvalda í Bandaríkjunum og það að Trump hafi náðað Bannon áður en hann var annað hvort sýknaður eða sakfelldur þýðir að ríkissaksóknarar í New York geta ákært hann aftur og réttað yfir honum, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Saksóknararnir byggja ákærur sínar á því að einhverjir af þeim sem Bannon á að hafa svikið búa í New York-ríki.
Bannon, sem er 68 ára gamall, gaf sig fram í New York í dag og þá var hann vígreifur og staðhæfði að hann hefði verið ákærður vegna komandi þingkosninga. Saksóknararnir vildu koma á hann höggi vegna þess að útvarpsþáttur hans væri mjög vinsæll meðal stuðningsmanna Trumps.
AP segir að hinir ónefndu aðilar í ákærunum gegn Bannon séu líklegast Brian Kolfage og Andrew Badolato, sem komu einnig að fjáröfluninni og hafa játað fyrir alríkisdómstól að hafa svikið fé úr fólki og stungið hundruð þúsundum dala í eigin vasa.