Fyrirliði Vals, Haukur Páll Sigurðsson, kom sínum mönnum yfir undir lok fyrri hálfleiks eftir að Ólafur Íshólm, markvörður Fram, sló hornspyrnu frá marki. Sigurður Egill Lárusson renndi boltanum á Tryggva Hrafn Haraldsson sem skrúfaði hann inn að marki.
Þar kom Haukur Páll á ferðinni og skoraði með viðstöðulausu skoti af stuttu færi. Réttara væri að segja að hann hafi lagt boltann í markið en það breytir því ekki að staðan var 1-0 heimamönnum í vil er flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Fram sótti í sig veðrið í síðari hálfleik og tókst loks að jafna metin þegar skammt var til leiksloka. Tiago tók þá aukaspyrnu vinstra megin fyrir miðju á vallarhelmingi Fram. Boltinn var skrúfaður inn að marki og var það varamaðurinn varamaðurinn Jannik Holmsgaard sem reis hæst og skilaði boltanum í netið.
Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur að Hlíðarenda. Valur í 4. sæti með 32 stig á meðan Fram er í 7. sæti með 23 stig.