Samkvæmt Tekjublaðinu var Hafþór með að meðaltali yfir 5 milljónir króna á mánuði í laun á síðasta ári, fyrir skatt. Hafþór hefur aflað tekna úr ýmsum áttum eftir að hafa öðlast heimsfrægð sem aflraunamaður og fyrir leik í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.
Tekjur Hafþórs í fyrra voru þó engu að síður talsvert lægri en árið 2020 þegar hann var með tæpar tíu milljónir króna í tekjur á mánuði.
Hafþór ætti einnig að hafa þénað vel á þessu ári eftir bardagann sem hann vann gegn Eddie Hall og vakti mikla athygli. Nú gæti einnig verið framundan bardagi við Tyson Fury, sem leitaði Hafþórs á Íslandi á dögunum, og ætti að skila miklum tekjum.
Tekjuhæsta íþróttafólkið 2021 samkvæmt Tekjublaði FV:
- Hafþór Júlíus Björnsson, aflraunamaður, 5.026 þús.
- Anníe Mist Þórisdóttir, CrossFit-stjarna, 3.458 þús.
- Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnuþjálfari FH, 1.950 þús.
- Líney Rut Halldórsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ, 1.626 þús.
- Darri Freyr Atlason, körfuboltaspekingur, 1.601 þús.
- Heimir Guðjónsson, fv. knattspyrnuþjálfari Vals, 1.376 þús.
- Óskar Hrafn Þorvaldsson, knattspyrnuþjálfari Breiðabliks, 1.300 þús.
- Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, 1.244 þús.
- Sigursteinn Arndal, handboltaþjálfari FH, 1.219 þús.
- Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis, 1.187 þús.
Á eftir Hafþóri er Anníe Mist Þórisdóttir, CrossFit-stjarna og einn af eigendum CrossFit Reykjavíkur, sú eina með meira en 2 milljónir króna á mánuði samkvæmt Tekjublaðinu.

Anníe var með tæplega 3,5 milljónir króna á mánuði en næstur á eftir henni er svo Eiður Smári Guðjohnsen, sem í fyrra var meðal annars aðstoðarlandsliðsþjálfari og sérfræðingur hjá Símanum um enska boltann. Eiður var með 1.950.000 krónur í tekjur.
Þar á eftir koma svo Líney Rut Halldórsdóttir, sem undir lok síðasta árs hætti sem framkvæmdastjóri ÍSÍ eftir fjórtán ára starf. Hún þénaði rúmlega 1,6 milljón króna á mánuði.
Darri Freyr Atlason er svo fimmti á listanum, einnig með rétt rúmlega 1,6 milljón króna á mánuði. Hann hætti sem þjálfari karlaliðs KR í körfubolta vorið 2021 til að einbeita sér að því að stýra viðskiptaþróun hjá fyrirtækinu Lucinity en hefur einnig verið í hlutverki körfuboltaspekings í sjónvarpi.
Stefán Rafn og Rasmus efstir af leikmönnum í boltaíþróttum
Af þeim sem að eru leikmenn í boltaíþróttum var Stefán Rafn Sigurmannsson, handknattleiksmaður hjá Haukum, með hæstar uppgefnar tekjur eða 1.155 þúsund krónur á mánuði. Hann sneri heim úr atvinnumennsku í Hauka í byrjun síðasta árs en starfar einnig sem fasteignasali.
Rasmus Christiansen, kennari við Hagaskóla og leikmaður Vals í fótbolta, var með 1.115 þúsund krónur og Óskar Örn Hauksson, sem síðasta vetur skipti frá KR yfir til Stjörnunnar, var á síðasta ári með 1.083 þúsund krónur.