Tæplega átta hundruð börn, eins árs og eldri, eru nú á biðlista eftir að komast inn á leikskóla í Reykjavík, þvert á loforð meirihlutans í vor um öll börn, tólf mánaða og eldri, kæmust inn.
Var þetta ekki bara óraunhæft frá byrjun?
„Stutta svarið er jú, segir Halldóra Guðmundsdóttir, leikskólastjóri Drafnarsteins í Vesturbæ Reykjavíkur, en rætt var við hana í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Vandinn sé áragamall og margþættur eins og ítrekað hafi verið bent á. Húsnæði ábótavant og það úr sér gengið. Íbúum borgarinnar hafi fjölgað gríðarlega auk hins margumtalaða mönnunarvanda, sem hefur reyndar ekki verið fyrir að fara á Drafnarsteini.
Halldóra þurfti til að mynda ekki að auglýsa eftir starfsfólki fyrir haustið.
Staðan mismunandi eftir hverfum
Staðan í Reykjavík er mismunandi eftir hverfum. Í Vesturbænum, þar sem mikið er af barnafólki, er allt hreinlega stappað.

„Ég er ekki að taka inn eitt einasta barn eins og staðan er akkúrat í dag, fædd 2021. En ég veit um laus pláss annars staðar í borginni,“ segir Halldóra.
Ekki endilega best fyrir svo ung börn
Halldóra kaus jafnframt ekki á móti því að fá tólf mánaða börn inn á leikskólana, en það sé ekki endilega best fyrir börnin sjálf.
„Tólf mánaða börn. Þau eru lítil. Þau eru ung. Að taka þau frá foreldrum sínum svo ung í stóra skóla, með stóran hóp barna, oft í lítil rými í mjög langan tíma. Við höfum ekkert rannsakað það nógu vel,“ segir Halldóra.
Er þetta vandi sem er hægt að leysa?
„Ef ég hefði svarið við því. Já, en það gerist ekki á morgun.“