Skoðun

Vestfirska Hringrásarhagkerfið

Tinna Rún Snorradóttir skrifar

Á Íslandi eru fjölmörg tækifæri til að efla hringrásarhagkerfið með því markmiði að lágmarka auðlindanotkun og úrgangsmyndun, og Vestfirðir eru í kjörstöðu til þess að vera leiðandi afl í þeirri vegferð.

Á Vestfjörðum er öflugt atvinnulíf þar sem fjölbreyttur iðnaður fær að vaxa og dafna, en á svæðinu eru stærstu fiskeldisfyrirtæki landsins, stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki, mjólkurvinnsla og landbúnaður svo fátt eitt sé nefnt. Öllum þessum iðnaði fylgja vannýttir hráefnastraumar á borð við meltu, seyru og önnur lífræn efni sem flest eru flutt af svæðinu í flutningabílum eða flutningaskipum með tilheyrandi kolefnisfótspori.

Stærstu byggðakjarnar á Vestfjörðum, Patreksfjörður, Bolungarvík og Ísafjörður eru skilgreindir sem “köld svæði” sem þýðir að ekki sé hægt að nota jarðvarma til að hita hús og mannvirki eins og tíðkast víða á landinu. Þess í stað er notast við rafkynntar hitaveitur þar sem vatn er hitað með rafmagni sem er síðan dreift á hús. Samkvæmt skýrslu Landsnets “Afl- og Orkujöfnuður 2022 – 2026” er fyrirséð að brenna þurfi olíu til að framleiða rafmagn á Íslandi vegna orkuskorts og spár gefa til kynna að skorturinn verður orðinn þónokkur 2025 og 2026. Þessi orkuskortur hefur gífurleg áhrif á rafkyntar hitaveitur en fyrri hluta árs 2022 var olía nýtt til upphitunar á vatni í 50 daga hjá Orkubúi Vestfjarða, sem stangast alfarið á við markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi, og því er mikilvægt að leita annarra leiða til orkuöflunar.

Blámi hefur tekið höndum saman við Vestfjarðarstofu og aðra haghafa í að kanna fýsileika þess að nýta þau lífrænu hráefni sem falla til á Vestfjörðum og búa til metangas sem brennt verður til að hita vatn. Auk vatns yrði til áburður sem hægt væri að nýta til ræktunar og uppgræðslu sem felur í sér minni innflutning á áburði.

Með því að nýta metangas til húshitunar er hægt að minnka olíunotkun og nýta þá raforku sem losnar til orkuskipta eða í önnur verkefni á svæðinu.

Höfundur er rannsóknar- og þróunarstjóri hjá Bláma.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×