Skoðun

Mann­fræðingar á atvinnumarkaði: opið bréf til ís­lenskra atvinnuveitenda

Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir skrifar

Kæri atvinnuveitandi, veist þú hvað mannfræði er og hvernig menntun mannfræðinga nýtist á atvinnumarkaði?

Mannfræði er regnhlífarhugtak. Innan fagsins eru mörg undirfög eins og félags- og menningarmannfræði, líffræðileg mannfræði, heilsumannfræði og málvísindaleg mannfræði. Við Háskóla Íslands er félagsleg mannfræði kennd.

Mannfræðingar rannsaka og skoða allt sem viðkemur manneskjunni. Í félagslegri og menningarlegri mannfræði er menningin rannsökuð, mannleg hegðun, fordómar, trúarbrögð, búferlaflutningar, kynjahlutverk, sjálfsmyndir, manngerð kerfi, tengsl mannsins við náttúruna, stjórnarfar samfélaga, hópaskipan, fjölmenning, vald, hagræn ferli, sifjatengsl og fjölmargt fleira.

Rannsóknaraðferðir mannfræðinnar gætu nýst vel á mörgum vinnustöðum því flestir mannfræðingar með MA próf í félags- og menningarlegri mannfræði hafa reynslu af því að fara á vettvang, fylgjast með, taka viðtöl við fólk, afla gagna, greina þau og setja niðurstöður í víðara samhengi. Mörg fyrirtæki og stofnanir erlendis sækjast eftir mannfræðingum einmitt vegna rannsóknarhæfni þeirra og færni í menningarlegri greiningu. Í því samhengi má nefna Google, FBI, Microsoft og SoundCloud. Á Norðurlöndunum eru mannfræðingar í auknum mæli ráðnir inn á spítala, m.a. til þess að rannsaka sjúklingaupplifun og menningu innan heilbrigðiskerfisins ásamt samskiptum sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks.

Mannfræðingar hafa góða menntun í fjölmenningu, innflytjendamálum og menningarlegri greiningu. Fjölbreytileiki hefur aldrei verið meiri á íslenskum vinnumarkaði og inngilding skiptir þar gríðarlega miklu máli. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hópar á vinnustöðum með ólíkan bakgrunn (t.d. kyn, aldur, menning, reynsla og menntun) taka betri og meira skapandi ákvarðanir. Fjölbreytt teymi eru lausnamiðaðri því þau sjá vandamál og lausnir út frá fleiri sjónarhornum.[1] Mannfræðingur á vinnustað býr yfir þekkingu á menningarnæmi og skilningi á mannlegum margbreytileika og veit að framsetning slíkra hugtaka á vinnustöðum skiptir litlu máli ef henni fylgja ekki raunverulegar gjörðir og innleiðing í daglegt starf.

Mannfræðingar eru greinandi, með þjálfun í gagnaöflun, greiningu gagna, framsetningu fræðsluefnis og lausnamiðaðri hugsun. Færni þeirra nýtist vel í fjölbreytt verkefni á sviði félagsmála, stjórnsýslu og opinberrar þjónustu, hjá alþjóðastofnunum og í þróunarsamvinnu, í fræðslu og rannsóknum, í fjölmiðlun, kennslu, á söfnum og bókasöfnum, í markaðssetningu, auglýsingageira og í verkefnastjórnun, enda hafa þeir reynslu af því að fylgja rannsóknarverkefnum eftir frá upphafi til enda. Mannfræðingar eru í auknum mæli að verða eftirsóttir starfskraftar í tæknigeiranum erlendis við þróun á notendamiðaðri hönnun og koma þá rannsóknaraðferðir mannfræðinnar að góðum notum.

Hvernig gætu mannfræðingar hjálpað þér atvinnuveitandi góður, við að takast á við þínar áskoranir?

Höfundur er mannfræðingur og stjórnarkona í Mannfræðifélagi Íslands


[1] McKinsey & Company. (2020). Diversity wins: How inclusion matters. McKinsey & Company.https://www.mckinsey.com/featured-insights/diversity-and-inclusion/diversity-wins-how-inclusion-matters ; Rock, D., & Grant, H. (2016). Why diverse teams are smarter.Harvard Business Review. Sótt af:https://hbr.org/2016/11/why-diverse-teams-are-smarter




Skoðun

Skoðun

Hamona

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Sjá meira


×