Á meðal þeirra sem hafa þurft að flýja í Frakklandi eru landverðir í Gironde héraði, en ferðamennirnir sem venjulega heimsækja héraðið í stórum stíl voru farnir fyrir nokkrum dögum.
Á suður Spáni þurftu rúmlega þrjú þúsund að flýja Mijas hæðinar þótt sumir hafi fengið að snúa aftur en í Portúgal telja menn sig hafa náð tökum á miklum eldum sem þar hafa brunnið síðustu daga. Rúmlega þúsund dauðsföll eru rakin til hitabylgjunnar í Portúgal og á Spáni undanfarið.
Á Bretlandseyjum búa menn sig síðan undir að hitamet falli í vikunni og hafa hlutar Englands verið settir á rautt hættustig vegna hita, í fyrsta sinn í sögunni. Núverandi hitamet á Englandi var sett árið 2019 þegar hitinn náði 38,7 stigum í Cambridge, en veðurfræðingar sjá fram á að hitinn gæti náð 41 stigi á nokkrum stöðum í landinu í dag eða á morgun.
Raunar er gert ráð fyrir að höfuðborgin London verði einn heitasti staður á jarðríki í dag, þar sem spár gera ráð fyrir að tölurnar þar fari fram úr svæðum eins og Vestur Sahara og Karabíska hafinu.