Safnið fagnaði 140 ára afmæli sínu í gær og hélt að því tilefni sýningu á ýmsum gersemum sínum í dag.
Á meðal þeirra er tillaga sjálfs Kjarvals að íslenska þjóðfánanum og einhverja frægasta fundargerð Íslandssögunnar með orðum Jóns Sigurðssonar og félaga hans: Vér mótmælum allir!

Safnið státar þó af mun fleiri skjölum af öllum toga.
Í stærsta geymslurými safnsins, sem er ansi stórt eins og við komumst að þegar við heimsóttum það í dag eru 3,5 hillukílómetri af skjölum. Þetta er þó aðeins lítill hluti af safnkostinum. Á safninu öllu eru nefnilega 46 hillukílómetrar af pappírsskjölum.
Ef öskjunum sem skjölin eru geymd í yrði þannig raðað upp hlið við hlið myndu þær ná frá Reykjavík og alla leið til Hveragerðis. Og raunar tveimur kílómetrum lengra.
Hundrað kílómetrar útistandandi
Og ljóst er að safnið á eftir að stækka ansi mikið í náinni framtíð.
„Það er mikið sem er útistandandi enn þá hjá afhendingarskyldum aðilum,“ segir Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður.
Hafa þeir ekki verið alveg nógu duglegir að skila inn gögnum til ykkar?
„Það má alltaf gera betur. En við þurfum líka að hafa húsnæði til að taka við því.“

Og sá tíu þúsund fermetra húsakostur sem safnið státar af í dag dugir ekki undir allt það magn sem á eftir að skila sér.
„Það má eiginlega segja að það séu kannski hundrað hillukílómetrar af gögnum,“ segir Hrefna.
Þannig að safnkosturinn mun tvöfaldast eða hvað?
„Njah, við ætlum að stefna að því að fá eins mikið af samtímanum og við getum á rafrænu formi þannig við stefnum að því að hann muni ekki alveg ná að tvöfaldast. En svona kannski nálægt því.“
Og geymsla skjala á rafrænu formi tekur mun minna pláss en geymsla á pappír.
Framtíðin liggur auðvitað í tækninni og því ljóst að söfnunarárátta okkar verði ekki eins plássfrek og hún hefur verið hingað til.