Manderson skoraði nítján stig og tók tíu fráköst í leiknum á Akureyri þar sem KR-ingar unnu botnliðið naumlega, 91-93. Þetta var í fyrsta sinn sem Manderson fagnaði sigri í búningi KR.
„Ég ætla ekki að lasta hann en þetta var á móti Þór Ak. Ég veit ekkert hvað ég á að segja um þennan gæja,“ sagði Hermann Hauksson í Subway Körfuboltakvöldi á mánudaginn. „Það er örugglega hægt að nota hann og láta hann gera eitthvað. Þetta er eitthvað skrítið.“
Matthías Orri Sigurðarson var hrifnari af KR-liðinu fyrir komu Mandersons en eftir að hann kom í Vesturbæinn.
„Ég var orðinn svo hrifinn af þessu liði áður en hann kom inn. Þeir voru léttleikandi og allir vissu hvað þeir áttu að gera. Þeir voru mjög vel slípaðir saman í vörninni og Þorri [Þorvaldur Orri Árnason] var að spila frábærlega. Mér finnst allt þetta hafa dottið niður eftir að hann kom. Hvort það er honum að kenna, held ég já,“ sagði Matthías.
„Ég hugsa að þetta hafi verið smá neyðarkaup. Auðvitað tekur maður áhættuna. En það er spurning hvort hann þurfi endilega að spila svona mikið.“
KR mætir Val í lokaumferð Subway-deildarinnar annað kvöld. KR-ingar þurfa að vinna til að vera öruggir með sæti í úrslitakeppninni.
Innslagið í heild sinni má sjá spilaranum hér fyrir ofan.