Innlent

„Neyðar­á­stand“ hjá Út­lendinga­stofnun komi ekki í veg fyrir mót­töku fólks frá Úkraínu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra segir að meint „neyðarástand“ hjá Útlendingastofnun, sem dómsmálaráðherra sagði fyrir helgi að kynni að teppa aðstöðu fyrir flóttamenn sem hingað kunna að koma frá Úkraínu, muni ekki koma í veg fyrir móttöku flóttafólks.

Þetta kom fram í máli Guðmundar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Fyrir helgi var rætt við Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra, sem sagði meðal annars að flóttafólk sem væri hér á landi nú teppti húsnæði og aðstöðu fyrir aðra flóttamenn.

„Það er hreint neyðarástand hjá Útlendingastofnun að finna húsnæði fyrir fólkið sem er að koma núna,“ sagði Jón.

Málin hreint ekki skyld

Guðmundur sagði þetta meinta neyðarástand hins vegar ekki munu koma í veg fyrir móttöku fólks sem nú flýr heimili sín í Úkraínu vegna innrásar Rússa í landið.

„Nei alls ekki. Almennt ber okkur nú bara skylda samkvæmt þeim alþjóðalögum og samningum sem við erum með, að taka á móti fólki sem hingað kemur í leit að vernd. Útvega því húsnæði og þjónustu. Hvað varðar móttöku flóttafólks frá Úkraínu, þá eru þessi tvö mál alls ekki skyld og mögulegur húsnæðiskortur hjá Útlendingastofnun mun ekki koma í veg fyrir að við öxlum okkar ábyrgð sem þjóð á meðal þjóða og tökum þátt í því að veita fólki [hjálp] sem er í mikilli neyð út af stríðinu í Úkraínu,“ sagði Guðmundur.

Ummæli dómsmálaráðherra í síðustu viku hafa vakið hörð viðbrögð. Félagsmálaráðherra vildi þó ekki ganga svo langt að segja að hann væri ósáttur við ummælin.

„Ég vil meina það að við séum að fara að taka hér á móti fólki. Það er það sem að ég er að einbeita mér að því að vinna að, og hef falið flóttamannanefnd að koma með tillögur þar að lútandi.“

Ef þessir flóttamenn verða eitthvað skemur hérna, getum við þá tekið við þeim mun fleiri?

„Þetta er einmitt eitt af því sem þarf að skoða, því margt af þessu fólki og sennilega flest, vill auðvitað fara sem fyrst aftur heim til sín ef átökin dragast ekki of mikið á langinn. Það sem maður hefur auðvitað líka áhyggjur af er fatlað fólk og aðrir sem eiga erfitt með að flýja og það þarf að koma slíku fólki líka til hjálpar, í heimalandinu,“ sagði félagsmálaráðherra.


Tengdar fréttir

Nágrannaþjóðir taka flóttamönnum frá Úkraínu opnum örmum

Evrópusambandið hefur fryst eignir forseta og utanríkisráðherra Rússlands í ríkjum sambandsins. Nágrannaríki Úkraínu í vestri taka flóttafólki þaðan opnum örmum en mikill fjöldi fólks reynir nú að komast vestur yfir. Hundruð manna hafa fallið í átökum beggja landa í Úkraínu undanfarinn sólarhring. Forseti landsins hefur kallað eftir fundi með Rússlandsforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×