Óskar Hallgrímsson ljósmyndari hefur búið í Kænugarði í nokkur ár. Við fylgjum honum eftir þegar hann bregst við loftvarnaflautum í borginni í morgun.

„Viðvörunarbjöllurnar voru aðhringja fyrir fimm mínútum síðan. Ég tók ákvörðun um að í staðinn fyrir að fara í sprengjuskýli í byggingunni minni ætla ég að taka smá rölt, það er ekki nema fimm mínútur. Það er í neðanjarðarlest sem er hérna rétt hjá,“ sagði Óskar.

Hann segir Háskóla neðanjarðarlestarstöðina vera einu dýpstu neðanjarðarlestarstöð í heimi. Þegar hann kom niður með löngum rúllustiganum sá hann strax fólk hafði leitað sér skjóls í iðrum jarðar.

„Ég veit að það er fullt af fólki hefur ákveðið að gista þar. Margir eru að leita skjóls í neðanjarðarlestunum út af því að þær eru svo svakalega djúpt niður í jörðini. Klárlega öruggasti staðurinn til að vera á í Kiev er þessi neðanjarðarlestarstöð,“ sagði Óskar Hallgrímsson íbúi í Kænugarði.