Eftir að Danir virtust einfaldlega leggja árar í bát gegn Frakklandi og tapa leiknum í kjölfarið með einu marki var ljóst að Ísland kæmist ekki í undanúrslit EM.
Íslenska þjóðin tók tapinu misvel og mörg hver gengu langt yfir strikið, flest vonuðust þó til að danska liðið myndi súpa seyðið af hruninu gegn Frakklandi í undanúrslitum sem það og gerði.
Danir byrjuðu leikinn reyndar betur og komust fjórum mörkum yfir snemma leiks. Spánverjar voru ekki á því að gefast upp og tókst á endanum að minnka muninn niður í aðeins eitt mark áður en fyrri hálfleikur var úti, staðan 14-13 Dönum í vil er flautað var til hálfleiks.
Skillz from @mikkelhansen24 @dhf_haandbold #ehfeuro2022 #watchgamesseemore pic.twitter.com/sAIPgqRKje
— EHF EURO (@EHFEURO) January 28, 2022
Ekki leið langur tími þangað til dæmið snerist við í síðari hálfleik. Allt í einu voru Spánverjar komnir með yfirhöndina og létu þeir hana alls ekki af hendi.
Gonzalo Pérez de Vargas hrökk í gírinn í marki Spánverja og varði hvert skotið á fætur öðru, á sama tíma raðaði Aleix Gómez Abelló inn mörkum á hinum enda vallarins og fór það svo að Spánn tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í handbolta.
Incredible goal by @aleixgomez11 @RFEBalonmano #ehfeuro2022 #watchgamesseemore pic.twitter.com/yvMsJ9ZAIq
— EHF EURO (@EHFEURO) January 28, 2022
Er þetta í þriðja skiptið í röð sem Spánverjar komast í úrslit EM í handbolta. Síðar í kvöld kemur svo í ljós hvort andstæðingurinn þar verður Frakkland eða Svíþjóð.
Aleix Gómez Abelló skoraði 11 mörk í liði Spánar, þar á eftir kom Joan Cañellas Reixach með sjö mörk. Þá varði Gonzalo Vargas 14 skot í markinu, þar af fjölda dauðafæra í síðari hálfleik.
Can you believe the saves @PerezdVargas is making? @RFEBalonmano #ehfeuro2022 #watchgamesseemore pic.twitter.com/8pIXA3ZeCw
— EHF EURO (@EHFEURO) January 28, 2022
Hjá Dönum var Mikkel Hansen markahæstur með átta mörk ásamt því að leggja upp nokkur til viðbótar.