Á vef stjórnarráðsins kemur fram að Berglind sé fædd 1978 og alin upp á Seltjarnarnesi og í Reykjavík.
„Berglind með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands. Hún á að baki fjölbreytta starfsreynslu. Hún hefur rekið fyrirtæki sitt Havarí frá árinu 2009 ásamt eiginmanni sínum Svavari Pétri Eysteinssyni, tónlistarmanni og hönnuði. Þau hjónin hafa í nafni Havarí fengist við fjölbreytt verkefni á sviði tónlistar, hönnunar, ferðaþjónustu og matvæla.
Þau bjuggu á Karlsstöðum í Berufirði, voru um tíma með sauðfé, ræktuðu lífrænt vottað grænmeti, og fengust við nýsköpun í matvælaframleiðslu. Berglind var verkefnastjóri yfir átaksverkefninu Lífrænt Ísland.
Áður vann Berglind sem blaðamaður á DV og síðar ritstjóri Helgarblaðs DV, og þá vann hún sem frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV, fyrst sem svæðisfréttamaður á Austurlandi og bjó þá um tíma á Seyðisfirði. Þá vann hún sjálfstætt um tíma við ritstörf þegar sem hún bjó ásamt fjölskyldu sinni á Drangsnesi. Berglind hefur lengi verið viðloðin tónlistarbransann og spilað með hljómsveitunum Skakkamanage og Prins Póló.
Berglind hefur tvisvar verið kosningastjóri Vinstri grænna, í þingkosningum fyrir Norðausturkjördæmi árið 2017 og fyrir Múlaþing árið 2019. Berglind er nú samskipta- og viðburðastjóri VG og miðlægur kosningastjóri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022, en fer í leyfi frá því starfi,“ segir í tilkynningunni.