Með ummælunum vísar Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, til fyrri ummæla Joe Biden Bandaríkjaforseta. Biden sagðist í gærkvöldi eiga von á því að forseti Rússlands ætli sér að gera einhvers konar innrás í Úkraínu á næstunni. Hann sagði að Rússar kæmu til með að gjalda það dýru verði.
Rússar fóru að færa meira herlið að landamærum Úkraínu fyrir um tveimur mánuðum og nú eru minnst hundrað þúsund hermenn við landamærin auk skiðdreka og annarra vopna.
Jón Ólafsson, stjórnmálaheimspekiprófessor við Háskóla Íslands sem hefur sérhæft sig í málefnum Rússlands, ræddi við fréttastofu í dag og segir afleiðingar af mögulegri innrás Rússa í Úkraínu geti verið grafalvarlegar.
Stjórnmálamenn ytra hafa áhyggjur af stöðunni og erindrekar Bandaríkjanna og Evrópu hafa fundað í Berlín í dag vegna mögulegrar innrásar Rússa. Talið hefur verið að spennan í Austur-Evrópu muni jafnvel endurvekja Atlantshafsbandalagið. Breska ríkisútvarpið greinir frá.