Innlent

Seljaskóla skellt í lás fram á þriðjudag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Seljaskóli verður lokaður fram á þriðjudag hið minnsta.
Seljaskóli verður lokaður fram á þriðjudag hið minnsta. Reykjavíkurborg

Allt skólastarf fellur niður í Seljaskóla á morgun, föstudaginn 14. janúar og mánudaginn 17. janúar vegna fjölda nemenda og starfsfólks em greinst hefur verið Covid-19. Frístundastarf og íþróttaæfingar hjá ÍR falla einnig niður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg þar sem segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin í ljósi mikils fjölda starfsmanna og nemenda sem greinst hafi með Covid-19.

Allt skólastarf í Seljaskóla fellur niður og jafnframt hefur sú ákvörðun verið tekin að loka Vinaseli, Regnboga og Hólmaseli. Í samráði við ÍR verða engar æfingar hjá grunnskólabörnum.

Staðan er þannig að ekki hefur tekist að ná utan um rakningu smita að öllu leyti síðastliðna daga og því er talið skynsamlegt að loka tímabundið til þess að fá betri yfirsýn á stöðuna.

Fundað verður aftur með Almannavörnum, skóla- og frístundasviði, frístunda- og félagsmiðstöðvum og ÍR mánudaginn 17. janúar og staðan endurmetin.

„Í bréfi til foreldra sem sent var út nú síðdegis var óskað eftir skilningi og þátttöku í því verkefni að reyna nú að draga úr útbreiðslu veirunnar sem virðist vera á fleygiferð í hverfinu. Ef allir leggjast á eitt er von til að þessi ráðstöfun skili árangri. Forráðamenn eru jafnframt hvattir til að fara í einkennasýnatöku með börn sín við minnstu einkenni,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×