Innlent

„Gott væri að fækka ferðum á bílum“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svifriksmælir við Grensásveg.
Svifriksmælir við Grensásveg. Vísir/Vilhelm

Styrkur svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs var nokkuð hár í borginni í morgun samkvæmt mælingum á þremur mælistöðvum Reykjavíkur. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mælir með því að notkun bílsins verði lágmörkuð í dag.

Mælistöðvar eru við Grensásveg, Vesturbæjarlaug og Laugarnes. Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða.

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir svifryk PM10 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Styrkur á tíðum yfir heilsuverndarmörkum

Klukkan 12 var styrkur svifryks á Grensásvegi 27 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 100,3 míkrógrömm á rúmmetra. Klukkustund fyrr var svifryksgildi 109 míkrógrömm á rúmmetra.

Í mælistöðinni við Vesturbæjarlaug var styrkur svifryks 105,4 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 64,9 míkrógrömm á rúmmetra. Í Laugarnesi var styrkur svifryks 60,7 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 71,4 míkrógrömm á rúmmetra.

Mæld gildi eru því um og yfir heilsuverndarmörkum.

Leggja til færri bílferðir

„Nú er hægur vindur og götur þurrar og er búist við svipuðum veðurfarsaðstæðum fram á morgundag og því líkur á svifryks- og köfnunarefnisdíoxíðmengun einkum við umferðargötur núna seinni partinn,“ segir í tilkynningu frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

„Hægt er að draga úr þessari mengun með því að fækka bílferðum en börn og þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum verða að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna.“

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á vefsíðunni loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×