Vísir greindi frá því í september síðastliðnum að Guðbjörg Sigurðardóttir kvikmyndaframleiðandi og Ottó Guðjónsson lýtalæknir hafi sett Ægisíðu 80 á sölu. Nú hefur kaupandi fundist en hann er enginn annar en Björk.
Húsið, sem er teiknað af Sigvalda Thordarson og byggt 1958, er 426 fermetrar á þremur hæðum, með sjö svefnherbergjum, fimm baðherbergjum og mögnuðu sjávarútsýni.
Á síðu hússins á fasteignavef Vísis, sem nú hefur verið tekin niður, kom fram að fasteignamat hússins hafi verið 222 milljónir króna. Björk hefur því greitt tæplega 200 milljónir yfir fasteignamati fyrir slotið.
Í frétt Viðskiptablaðsins segir að kaupsamningur hafi verið gerður þann 21. október síðastliðinn og að honum hafi nú verið þinglýst. Húsið sé þar með orðið eitt það dýrasta á landinu.
Myndir af húsinu, sem er hið glæsilegasta, má sjá hér.