Forseti Úkraínu greindi frá því í dag að friðarsamkomulag sem gert var fyrr á árinu milli uppreisnarmanna í Donbas héraði í austurhluta Úkraínu sem studdir eru af Rússum hafi verið endurnýjað. Það gæfi von um slökun í samskiptunum við Rússa sem og samskiptum Rússa og NATO. En leiðtogafundur forseta Bandaríkjanna og Rússlands er fyrirhugaður í janúar.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hélt sinn árlega maraþonfund með fréttamönnum í dag þar sem hann varaði NATO ríkin við því sem hann kallar útþenslustefnu í austri.
„Við segjum hreint út: Það má engin frekari úrþennsla eiga sér stað á vegum NATO til austur. Hvað er það sem menn skilja ekki,“ spurði Pútín á fréttamannafundinum. Rússar hefðu ekki sett upp eldflaugar við landamærin að Bandaríkjunum eins og Bandaríkin hefðu gert í Póllandi og Rúmeníu, sem hvor tveggja eru fullvalda NATO ríki.

Pútín hefur hins vegar sent um hundrað þúsund hermenn að landamærunum að Úkraínu. Hann gagnrýnir að Bandaríkin sjái stjórnarher Úkraínu fyrir vopnum eins og eldflaugum sem geta grandað skriðdrekum og úkraínskir hermenn æfðu sig með á dögunum.
Rússlandsforseti krefst þess að vestrænar NATO hersveitir verði kallaðar frá Eystrasaltsríkjunum og Póllandi sem eru aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu. Þá krefst hann þess að NATO útiloki að Úkraína fái nokkru sinni aðild að bandalaginu.
Heimsmynd Pútíns byggir á tímum kalda stríðsins þegar Sovétríkin voru samveldi fjölda ríkja sem sum hver eru komin í annað hvort eða bæði Evrópusambandið og NATO. Hann lítur á gömlu austur evrópuríkin sem áhrifasvæði Rússlands og vill ráðskast með stefnu þeirra.

Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu ítreakaði aftur á móti stefnu í fyrradag stjórnvalda í Úkraínu í fyrradag.
„Við viljum koma friðarferlinu í Donbas aftur af stað eiins fljótt og verða má. Endurheimta Krímskaga, fá aðild að Evrópusambandinu á næstu árum og fá mjög skýra og nákvæmt tímasetta áætlun frá NATO. Og við viljum að þetta gerist árið 2022,“ segir Zelenskyy.
Afar bágborið ástand er í austurhéruðum Úkraínu. Rússneskir hermenn hafa barist þar með uppreisnarmönnum gegn stjórnarher Úkraínu frá árinu 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga.