Stóllinn komst í fréttir í síðustu viku fyrir að vera dýrasta vara sem Góði hirðirinn hefur sett á sölu frá upphafi.
Hann er dönsk hönnunarvara frá 6. áratugnum, eftir hönnuðinn Arne Vodder, og var settur á hálfa milljón króna í vefverslun Góða hirðisins.
Óhætt er að segja að svo hátt verð á húsgagni í nytjavöruverslun hafi farið fyrir brjóstið á mörgum.

Missti konuna sína úr krabbameini
En fréttir af málinu urðu til þess að fyrrverandi eigandi stólsins gaf sig fram við Góða hirðinn.
„Hann vissi alveg að hann væri með verðmæti í höndunum en vildi koma þeim í gott málefni og því kom hann til okkar, stóllinn,“ segir Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins.
Eftir að eigandinn fannst var ákveðið að leyfa honum að velja málefni sem ágóðinn af sölu stólsins rynni til.
„Og þar sem hann missti konuna sína úr krabbameini þá valdi hann Ljósið. Og allur ágóðinn af stólnum mun því renna til Ljóssins,“ segir Ruth.
Stóllinn fer því á uppboð klukkan sjö í fyrramálið. Og lágmarksupphæðin er dálítið minni en upphaflega verðið; fyrsta boð er upp á 95 þúsund krónur.
„Og það geta þá allir boðið í stólinn. Þetta verður sem sagt sett fram á Góða hirðis síðunni á Facebook. Og fólk gerir þá bara boð í kommentakerfinu.“
Uppboðið verður opið fram til næsta mánudags.

Líklega frumlegasta styrktarleiðin
Allt er þetta gert í samstarfi við Ljósið sem er eðlilega himinlifandi með útkomuna í stóra stólamálinu.
„Við höfðum nú bara séð hann hérna á fjölmiðlum og það ver ekki fyrr en bara núna á dögunum sem að við fréttum af þessu skemmtilega verkefni og tókum því náttúrulega bara fagnandi,“ segir Heiða Eiríksdóttir hjá Ljósinu.
Ætli þetta sé ekki með svona frumlegri styrktarleiðum sem þið hafið fengið?
„Jú ég man ekki til að við höfum fengið svona styrki hingað til án þess að ég þori að fullyrða það. Það er nú alveg ýmislegt sem að kemur svona skemmtilegt á okkar borð,“ segir Heiða.
Reikningsupplýsingar Ljóssins verða einnig birtar við uppboðsfærsluna á morgun og geta þeir sem vilja leggja félaginu lið en hafa ekki áhuga á stólnum því lagt frjáls framlög inn á hann.
Reikningurinn er: 0130-26-410420 og kennitala félagsins er: 590406-0740.