Á mótmælum í Kenosha í Wisconsin í fyrra skaut Rittenhouse, sem var þá sautján ára, tvo menn til bana og særði þann þriðja.
Samvkæmt frétt Reuters hafa saksóknarar reynt að mála Rittenhouse sem sjálfskipaðan löggæslumann sem hafi skotið menn til bana án réttlætingar. Það hafi þó gengið illa og vitnisburður nokkurra vitna saksóknaranna hafi frekar stutt mál verjenda Rittenhouse sem segja hann hafa óttast um líf sitt umrætt kvöld.
Skaut tvo til bana og særði einn
Umfangsmikil mótmæli vegna kerfisbundins rasisma í Bandaríkjunum, sem snerust upp í óeirðir, fóru fram í Kenosha síðasta sumar. Hófust þau eftir að lögregluþjónn skaut hinn þeldökka Jacob Blake ítrekað í bakið.
Rittenhouse, sem þá var sautján ára gamall, lagði leið sína til borgarinnar, úr öðru ríki og vopnaður hálfsjálfvirkum riffli, og gekk þar til liðs við hóp vopnaðra manna sem settu sér það markmið að verja fyrirtæki í borginni gegn mótmælendum og óeirðarseggjum.
Þegar kvöldinu lauk hafði Rittenhouse skotið Þá Joseph Rosenbaum og Anthony Huber til bana. Þar að auki hafði hann sært mann sem heitir Gaige Grosskreutz, sem var vopnaður skammbyssu þetta kvöld.
Meinafræðingur sem krufði Rosenbaum og Huber sagði Rosenbaum hafa orðið fyrir fjórum skotum. Það síðasta hafi gengið af honum dauðum og það skot hafi farið í bakið á honum eftir að hann féll til jarðar.
Hér má sjá ítarlega frétt New York Times þar sem rætt er við vitni, þann sem Rittenhouse særði og fógeta Kenosha. Einnig er farið yfir fjölda myndbanda af vettvangi. Myndbandið hefst á samantekt á myndefni frá því þegar Rittenhouse skaut mennina þrjá.
Rittenhouse var ákærður fyrir tvö morð, morðtilraun og fyrir að bera vopn ólöglega. Hann hefur neitað sök í öllum ákæruliðum en hann stendur frammi fyrir mögulegu lífstíðarfangelsi.
Eins og var bersýnilegt í vali kviðdómenda er Rittenhouse mjög svo umdeildur. Margir hafa hyllt hann sem hetju og aðrir segja hann morðingja.
Í réttarhöldunum var Grosskreutz, sá sem Rittenhouse særði, einnig kallaður til sem vitni af saksóknurunum. Hann bar vitni í nokkrar klukkustundir, samkvæmt frétt New York Times, og þegar Rittenhouse skaut hann sagðist hann hafa verið sannfærður um að hann myndi deyja.
Verjendur Rittenhouse spurðu Grosskreutz af hverju hann hefði logið að lögreglu að skammbyssa hans, sem hann hafði ekki leyfi til að bera, hefði fallið úr hulstri hans. Myndefni af vettvangi sýnir að Grosskreutz hélt á byssu sinni og viðurkenndi hann að Rittenhouse hefði ekki skotið hann fyrr en Grosskreutz miðaði byssunni á Rittenhouse.

Richie McGinniss, sem er myndatökumaður fyrir öfga-hægri vefsíðuna Daily Caller, bar einnig vitni en hann sagðist hafa verið í lífshættu þegar Rittenhouse skaut Rosenbaum. Hann hafi næstum orðið fyrir þeim skotum.
Samkvæmt New York Times sagði McGinnis frá því þegar hann reyndi að bjarga Rosenbaum og reynt að stappa stálinu í hann rétt áður en hann dó.
„Ég sagði honum að við myndum fá okkur bjór eftir þetta og allt yrði í lagi," sagði McGinnis.
Hann sagði þó einnig að hann hefði séð Rosenbaum hlaupa á eftir Rittenhouse, reyna að ná til hans og reyna að ná í byssu hans. Verjendur Rittenhouse höfðu haldið því fram áður og er það hluti af vörn þeirra að þess vegna hafi Rittenhouse skotið Rosenbaum.
Rittenhouse sagður ætla að bera vitni
Réttarhöldin halda áfram í dag og samkvæmt frétt CNN er búist við því að Rittenhouse sjálfur muni bera vitni á næstu dögum.