Skoðun

Eiga börnin að borga skuldirnar okkar?

Sigþrúður Ármann skrifar

Það er svo auðvelt að lofa og lofa, ætla að eyða og eyða peningum annarra. Meira að segja peningum sem eru ekki til staðar. Hugmyndir vinstri flokka, með loforðum um að auka útgjöld um tugi og jafnvel hundruð milljarða, sem fjármagna á með skattahækkunum og lántökum, virka ekki.

Það er í besta falli fullkomlega óábyrgt að láta komandi kynslóðir, börnin okkar, sitja uppi með skuldir samtímans. Stefna Sjálfstæðisflokksins, gengur þvert á hugmyndafræði vinstri eyðsluflokkanna. Við viljum auka verðmætasköpun í samfélaginu með lægri sköttum sem gerir okkur kleift að standa undir öflugu velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, byggja upp innviði og um leið greiða niður skuldir. Það er svo merkilegt að tekjur ríkissjóðs hækka með lægri sköttum, en lækka með hærri sköttum. Með því að lækka skatta hleypum við súrefni inn í atvinnulífið, gerum fólki enn frekar kleift á að fá atvinnu og aukum ráðstöfunartekjur heimila.

Höldum áfram að skapa tækifæri fyrir börnin okkar, látum þau ekki sitja uppi með skuldir samtímans og gerum þeim kleift að njóta sín í landi tækifæranna.

Höfundur skipar 6. sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðvesturkjördæmi




Skoðun

Sjá meira


×