„Lét kappið bera fegurðina ofurliði í gær, ásamt fleirum,“ segir Kjartan Henry í afsökunarbeiðni á Twitter. Hann gæti átt yfir höfði sér langt bann eftir að hafa slegið til Þórðar Ingasonar, varamarkvarðar Víkings, þegar upp úr sauð undir lok leiks.
Kjartan fékk að líta rauða spjaldið og kom því ekki til greina sem vítaskytta vegna vítsins sem dæmt var á sama tíma. Pálmi Rafn Pálmason tók spyrnuna en Ingvar Jónsson varði og Víkingur komst þar með á topp deildarinnar með 2-1 sigri, á meðan að vonir KR um Evrópusæti dvínuðu enn.
„Ekki í lagi og biðst afsökunar á því,“ sagði Kjartan um hegðun sína. „Mikill hiti og mikið undir. Víkingar frábærir og óska þeim aftur alls hins besta,“ sagði Kjartan.
Lét kappið bera fegurðina ofurliði í gær, ásamt fleirum. Ekki í lagi og biðst aftur afsökunar á því. Mikill hiti og mikið undir. Víkingar frábærir og óska þeim aftur alls hins besta.
— Kjartan Henry Finnbogason (@kjahfin) September 20, 2021
KR er í 4. sæti deildarinnar, stigi á eftir KA, fyrir lokaumferðina næsta laugardag. Ef að Víkingur verður bikarmeistari mun liðið sem endar í 3. sæti deildarinnar komast í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Annars munu bikarmeistararnir fá þriðja sætið sem í boði er í Evrópukeppnum fyrir íslensk lið.