„Þetta var leikurinn sem þær þurftu virkilega að vinna til að vera í þessum séns. Þær byrjuðu þetta mót vel en stóru prófin eru stóru liðin,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi.
„Algjörlega, þær þurfa að vinna þessi lið í kringum sig til að fá þessi mikilvægu stig og liðin í kringum þær núna eru Breiðablik og Valur. Þannig að þær hafa ekki náð því í þessari fyrri umferð en þær hafa seinni umferðina til að bæta fyrir það,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, sérfræðingur og fyrrum leikmaður Vals, um leikinn.
Hún hélt svo áfram.
„Þetta var hörkuleikur eins og Pétur [Pétursson, þjálfari Vals] sagði. Þetta var dæmigerður Selfoss – Valur leikur, mikil stöðubarátta og barist um hvern einasta bolta. Mikil harka í þessu og úrslitin réðust seint í seinni hálfleik svona eins og er dæmigert fyrir þessi lið þegar þau mætast.“
„Ég held að Pétur sé dauðfeginn að vera búinn að fara austur fyrir fjall og sækja þrjú stig,“ bætti Helena við.
Valur fékk á dögunum bandaríska framherjann Cyera Makenzie Hintzen til liðs við sig. Hún kom inn af bekknum þegar tæp klukkustund var liðin og var frammistaða hennar til umræðu.
„Erfitt að dæma hana út frá þessum leik því þetta er mikil stöðubarátta og svoleiðis. Væri gaman að sjá hana í næsta leik gegn Stjörnunni. Hún var að koma sér í færi, “ sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir, sérfræðingur þáttarins um viðbótina í Valsliðið.
„Hún er mjög fljót og fylgin sér. Þetta er kraftmikill framherji og var óheppinn að skora ekki. Held að þetta sé frábært fyrir Elínu Mettu [Jensen], það losnar aðeins um hana og ábyrgðin dreifist á fleiri menn þarna í Valsliðinu,“ sagði Margrét Lára að endingu.
Selfoss er sem stendur í 3. sæti deildarinnar með 14 stig að loknum 9 umferðum en Valur trónir á toppnum með 20 stig.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.