Þriðji leikur lokaúrslita Domino's deildar karla í körfubolta er í Keflavík í kvöld og Keflvíkingar verða þar í sömu stöðu og þeir voru í 11. apríl 2008. Keflavík mætti þá einnig 2-0 undir í þriðja leik á heimavelli sínum á Sunnubrautinni.
ÍR hafði komið öllum á óvörum með því að vinna deildarmeistarana tvívegis þar af með sautján stigum í leik tvö. Tímabilið var því undir hjá Keflavík í leik þrjú.
Keflavíkurliðið vann þann leik 106-73 og skrifaði síðan söguna í úrslitakeppninni með því að vinna hina tvo leikina líka og slá út ÍR-liðið 3-2. Keflavík tryggði sér síðan Íslandsmeistaratitilinn með 3-0 sigri á Snæfelli í úrslitaeinvíginu.
Þetta Keflavíkurliðið varð það fyrsta í sögu úrslitakeppninni til að koma til baka í einvígi þar sem það lendir 2-0 undir. Síðan þá hafa þrjú lið bæst í hópinn.
Keflvíkingar misstu sjálfir niður 2-0 forystu á móti Haukum í átta liða úrslitunum 2015. Keflavík vann tvo fyrstu leikina en Haukarnir svöruðu með þremur sigurleikjum í röð.
Í síðustu úrslitakeppni, vorið 2019, þá komust tvö lið til baka í átta liða úrslitunum eftir að hafa lent 2-0 undir. Það voru lið ÍR og lið Þórs frá Þorlákshöfn. Þau urðu um leið einu liðin sem hafa komið til baka í slíkri stöðu með aðeins einn heimaleik af þessum þremur leikjum sem þau þurftu að vinna í röð.
Þessi dæmi eru í undanúrslitum og átta liða úrslitunum. Þegar kemur að sjálfu úrslitaeinvíginu þá hefur ekkert lið náð að rísa upp frá dauðum.
Ellefu lið hafa lent 2-0 undir í lokaúrslitunum og aðeins eitt þeirra hefur komið einvíginu í oddaleik. Það voru Grindvíkingar vorið 2017. Grindavíkurliðið tapaði hins vegar oddaleiknum með 39 stiga mun gegn KR.
Leikurinn á milli Keflavíkur og Þórs í kvöld hefst klukkan 20.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphtiun Domino's Körfuboltakvölds hefst klukkan 19.30 og eftir leikinn verður hann gerður upp á sömu rás, Stöð 2 Sport.
- 49 lið hafa komist í 2-0 í sögu úrslitakeppninnar:
- (Þar sem þarf að vinna þrjá leiki)
- 28 hefur verið sópað í sumarfrí (57%)
- 21 hafa komist í fjórða leik (43%)
- 7 hafa komist í oddaleik (14%)
- 4 hafa unnið einvígið (8%)
- --
- Í lokaúrslitunum hafa 11 lið komist í 2-0 í sögu úrslitakeppninnar:
- (Þar sem þarf að vinna þrjá leiki)
- 7 hefur verið sópað í sumarfrí (64%)
- 4 hafa komist í fjórða leik (36%)
- 1 hefur komist í oddaleik (9%)
- 0 hafa unnið einvígið (0%)