Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Beatty hafi andast í gær í faðmi fjölskyldunnar. Hann lætur eftir sig eiginkonuna Söndru Johnson, átta börn og barnabörn.
Beatty er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Otis í kvikmyndinni Superman frá árinu 1978, en sex árum fyrr fór hann með hlutverk Bobby Trippe í spennumyndinni Deliverance, sem skartaði Jon Voight og Burt Reynolds í aðalhlutverki.
Beatty ljáði bangsanum Lotso rödd sína í myndinni Toy Story 3 og þá fór hann með hlutverk Stanley Bolander í þáttaröðinni Homicide: Life on the Street frá tíunda áratugnum.
Á um fimmtíu ára leiklistarferli var Beatty margoft tilnefndur til verðlauna, meðal annars fyrir hlutverk sitt í myndinni Network frá árinu 1976 þar sem hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aukahlutverki. Hann hlaut á ferli sínum einnig tilnefningar til Emmy og Golden Globe verðlauna.