Eins og fram kom í gær mun Daði Freyr og Gagnamagnið ekki stíga á svið í kvöld þar sem að einn meðlimur í Gagnamagninu greindist með Covid-19 í skimun í gærmorgun. Það var Jóhann Sigurður Jóhannsson, liðsmaður Gagnamagnsins, sem greindist með kórónuveiruna.
Því verður upptaka frá annarri æfingu hópsins notuð í beinni útsendingu í kvöld. Á fyrra undankvöldinu mátti sjá hvernig fór um keppendur í svokölluðu græna herbergi. Í tilfelli íslenska hópsins verður það óhefðbundið.
Þau Daði Freyr Pétursson, Árný Fjóla Ásmundsdóttir, Sigrún Birna Pétursdóttir og Hulda Kristín Kolbrúnardóttir verða á þaki hótelsins í Rotterdam.
„Hollendingarnir bjuggu til stúdíó hér á þakfundarherberginu í gær,“ segir Rúnar Freyr Gíslason fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins í samtali við fréttastofu.
Þeir Stefán Hannesson og Jóhann Sigurður Jóhannsson verða líka með en andlitin á þeim verða í iPödum ofan á Gagnamagnsbrúðum.
Keppnin í kvöld
Seinna undanúrslitakvöldið hefst klukkan 19 í kvöld. Tíu þjóðir komast áfram í úrslitakvöldið sem verður á laugardaginn í Ahoy-höllinni. Ísland er númer átta í röðinni, sem sjá má hér fyrir neðan.
- San Marínó
- Eistland
- Tékkland
- Grikkland
- Austurríki
- Pólland
- Moldavía
- Ísland
- Serbía
- Georgía
- Albanía
- Portúgal
- Bulgaría
- Finnland
- Lettland
- Sviss
- Danmörk