Bæjarstjórn Voga hafnaði framkvæmdaleyfinu nýverið og vill frekar að lagður verði jarðstrengur en að spennulínur verði reistar.
Kæra Landsnets byggir, samkvæmt tilkynningu, á því „að skilyrði laga fyrir veitingu framkvæmdaleyfis hafi verið uppfyllt og því sé höfnun Voga ólögmæt auk þess sem hún vekur upp mörg álitamál sem nauðsynlegt er að fá skorið úr um“.
Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundarsyni, forstjóra Landsnets, að Suðurnesjalína 2 sé mikilvæg framkvæmd til að tryggja raforkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum. Stjórnvöld hafi sett svæðið í forgang við uppbyggingu flutningskerfisins enda sé öryggi raforkukerfisins á svæðinu ábótavant.
„Þrjú af fjórum sveitarfélögum sem línan mun liggja um, og nær allir landeigendur, hafa samþykkt lagningu hennar. Ákvörðun Voga að hafna framkvæmdaleyfinu, þrátt fyrir að Landsnet hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis, voru því vonbrigði og setur verkefnið í uppnám“ segir Guðmundur.
Landsnet segir að að loftlínuvalkosturinn tryggi best afhendingaröryggi raforku af þeim kostum sem voru skoðaðir. Rannsóknir hafi sýnt að svæðið sé útsett fyrir jarðskjálftum og eldgosum sem geri jarðstreng ekki góðan kost. Hraunrennsli og jarðskjálftar geti skemmt hann en loftlínur þoli hreyfingu betur og hægt sé að verja þær gegn hrauni.
Einnig felur jarðstrengsvalkostur í sér umtalsverðan viðbótarkostnað sem notendur raforku þyrftu að borga. Auk þess sem sá kostur fellur ekki að stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í flutningskerfinu og er ekki í samræmi við raforkulög. Í ljósi þessa er Landsneti að lögum ekki heimilt að ráðast í dýrari framkvæmd enda hafi dómstólar komist að niðurstöðu um að líta beri til sjónarmiða um hagkvæmni og öryggi við ákvarðanir uppbyggingu flutningskerfisins, m.a. viðmiða stefnu stjórnvalda um lagningu raflína,“ segir í tilkynningunni.