Víðir greindist með Covid-19 þann 25. nóvember á síðasta ári og er enn að kljást við eftirköst sjúkdómsins.
„Ég finn að ég er fullur orku. Það koma dagar þar sem ég er þreyttur. Finnst ég hafa tekið miklum framförum.“
Víðir var í viðtali við fréttastofu að loknum upplýsingafundi Almannavarna fyrr í dag. Hann sagði þar að bragð- og lyktarskynið sem hann tapaði í veikindunum, væru ekki komin til baka.

„En andlegi og líkamlegi þátturinn er góður núna. Þetta er svolítið eins og þegar menn missa önnur skynfæri. Þú nýtir aðra þætti. Ég horfi meira á matinn sem ég borða og skynja áferðina. Maður verður að þróa annað með sér þegar eitt bregst. Flestir hafa fengið þetta til baka eftir einhvern tíma. En það líður oft mjög langur tími.“

Dæmi séu um að fólk sem greindist í mars í fyrra sé enn að kljást við skert bragð- og lyktarskyn.
„Þetta kemur bara þegar það kemur. Ég ætla ekki að láta þetta trufla mig.“