Christopher Wray sagði fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar bandaríska þingsins í gær að Kína væri það ríki sem ógnaði helst efnahagslegu öryggi og lýræðislegum hugsjónum bandarísku þjóðarinnar.
Sagði hann getu Kínverja til að hafa áhrif á bandarískar stofnanir verulega og stöðuga.

Vaxandi spennu gætir í samskiptum Bandaríkjanna og Kína, meðal annars vegna meintra mannréttindabrota kínverskra stjórnvalda í Xinjiang og afstöðu þeirra gagnvart Taívan og Hong Kong.
Wray nefndi sérstaklega rannsókn á aðgerð kínverskra yfirvalda sem bæri yfirskriftina Refaveiðar (e. Foxhunt) en hún fæli meðal annars í sér ólögmætar lögregluaðgerðir í Bandaríkjunum og væri ætlað að ógna og kúga Kínverja í Bandaríkjunum.
Samkvæmt kínverskum stjórnvöldum eru Refaveiðar alþjóðleg aðgerð gegn spillingu, sem beinist gegn kínverskum flóttamönnum, oft fyrrum embættismönnum eða auðugum einstaklingum sem er grunaðir um fjármálabrot.
Fyrir um viku síðan birtu yfirvöld í Bandaríkjunum árlegt áhættumat þar sem varað er við því að stjórnvöld í Kína og Rússlandi séu að nýta sér Covid-19 faraldurinn til að auka áhrif sín á heimsvísu.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að stjórnvöld í Peking hafi freistað þess að móta hið pólitíska landslag í Bandaríkjunum, til að ná pólitískum áhrifum og þagga gagnrýni á eigin stefnumótun, þar á meðal aðgerðir í Xinjiang og Hong Kong.
Avril Haines, ráðherra þjóðaröryggismála, og William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), komu einnig fyrir nefndina. Haines sagði að það hefði aldrei verið mikilvægara að Bandaríkin fjárfestu í normum sínum, stofnunum og vinnuafli.