Kristín Jónsdóttir eldfjalla og jarðskjálftafræðingur og hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands segir það ekki endilega hafa komið á óvart að gos hafi byrjað í þriðju sprungunni rétt um miðnætti síðast liðna nótt.

„Það má í rauninni segja að það hafi byrjað nýr kafli í þessari goshrinu á annan í páskum. Þegar opnaðist þarna ný sprunga. Svo hefur hún má segja teygt sig, eða það kemur þarna ný spurnga nákvæmlega á milli gosstöðvanna í Geldingadölum og þessarar nýju aðeins norðar,“ segir Kristín.
Gosið sé því greinilega enn að þróast.
„Það eru sprungur þarna ennþá lengra til norausturs. Spurning hvort að það verði framhaldið að það gjósi líka upp úr þeim. Þetta er það sem við erum að fylgjast með.“ Það geti því alveg eins gerst að gos hefjist á fleiri stöðum. Þær þær gossprungur sem nú gjósi upp úr raði sér nokkuð snyrtilega upp.
„Það er hreinlega hægt að teikna upp beina línu í gegnum þessar gosstöðvar. Þær liggja yfir þessum gangi, þessum kvikugangi, sem myndaðist í lok febrúar og fram í mars. Við vitum frá aðlögunarmælingum að kvikugangurinn er grunnur á þessum slóðum næst gosstöðvunum en virðist vera dýpri annars staðar,“ segir Kristín.

Þrátt fyrir allt sé gosið þó staðbundið á innan við kílómetra frá gosstöðvunum þótt gangurinn sé miklu lengri og nái frá Nátthaga langleiðina að Keili. Meðan virkni gossins haldist þarna breyti hún ekki miklu varðandi þær sviðsmyndir sem unnið væri með.
„En auðvitað ef virknin færist eitthvað mikið norðureftir færi hraun að flæða norður fyrir Fagradalsfjall. Það getur í rauninni flætt ansi lengi þar án þess að það hafi nokkur áhrif. Þannig að við þurfum bara að vera róleg og bíða og sjá hvernig þetta þróast,“ segir Kristín.
Almenningur hefur sýnt gosinu mikinn áhuga en það viðrar sennilega ekki vel til gosskoðana í dag.
„Aðstæður eru nefninlega ekki góðar. Það er mjög lélegt skyggni á svæðinu. Það sést bara best með því að skoða vefmyndavélar. Það er bara ekki gott veður í dag,“ segir Kristín Jónsdóttir. Það gæti þó ræst úr veðrinu eftir því sem líði á daginn.