Í janúar tilkynnti Þróttur að þær Katie Cousins og Shaelan Murison myndu leika með liðinu í sumar. Nú hefur Moyer bæst í hópinn og er hún væntanleg á næstum vikum til landsins.
Í tilkynningu Þróttar segir að um kröftugan miðjumann sé að ræða sem eigi að baki öflugan feril í heimalandinu. Hún lék síðast með liði Penn State-háskólans en þar vann hún til að mynda gullverðlaun í sterkustu háskólakeppni Bandaríkjanna [Big 10 League Conference].
„Við höldum áfram að undirbúa kvennaliðið okkar fyrir sumarið. Shea Moyer er frábær viðbót, sterkur leikmaður með mikla tækni og hæfileika. Hún á að baki frábæran feril og á eftir að heilla stuðningsmenn Þróttar í sumar,“ segir Kristján Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar Þróttar Reykjavíkur.
Þróttur mætir nýliðum Tindastóls í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar þann 5. maí næstkomandi á Sauðárkróki.