Guardian greinir frá en 62 farþegar voru innanborðs þegar vélin hrapaði, aðeins nokkrum mínútum eftir að hún lagði af stað frá flugvellinum í Jakarta. Lögmannsstofan Wisner, sem fer með mál fjölskyldu þriggja fórnarlamba flugslyssins, segist hafa stefnt Boeing í síðustu viku fyrir rétti í Cook-sýslu í Illinois í Bandaríkjunum þar sem fyrirtækið hefur höfuðstöðvar sínar.
Að því er segir í stefnunni á hendur Boeing voru einn eða fleiri gallar á vélinni, meðal annars mögulegur galli í sjálfstýringarkerfi eða í flugstjórnarkerfi. Búist er við að bráðarbirgðaskýrsla Indónesískra yfirvalda um flugslysið verði tilbúin í byrjun febrúar. Flugriti vélarinnar hefur þegar komið í leitirnar en enn stendur yfir leit að hljóðrita úr flugstjórnarklefa sem ætti að gera rannsakendum kleift að hlusta á samskipti flugstjóra í aðdraganda slyssins.
Lögmannsstofan segist aðeins höfða mál fyrir hönd einnar fjölskyldu en hafi þó verið í sambandi við aðstandendur fleiri farþega sem týndu lífi í slysinu.
„Hugur okkar er hjá áhafnarmeðlimum Sriwijaya Air í flugi SI-182, farþegum og fjölskyldum þeirra. Tæknisérfræðingar Boeing aðstoða við rannsóknina og við höldum áfram að bjóða allan þann stuðning sem á þarf að halda á þessum erfiðu tímum,“ segir í yfirlýsingu frá Boeing.