Unnið er að því að rannsaka upptök eldsins og benda bráðabirgðaniðurstöður til þess að upptakastaður hafi verið á þeirri hæð hússins sem kannabisplönturnar voru ræktaðar, en húsið er á þremur hæðum. Leikur því sterkur grunur á að kviknað hafi í út frá ræktuninni. Enginn er í haldi lögreglu en eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur einn verið yfirheyrður vegna málsins. Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um málið.

Eldurinn kom upp laust fyrir klukkan sjö á mánudagsmorgun. Allt tiltækt slökkvilið var kallað út og var húsráðandi, sá eini sem var í húsinu, kominn út þegar slökkviliðsmenn bar að garði. Hann var fluttur á slysadeild með reykeitrun en útskrifaður nokkrum tímum síðar. Um gríðarlegt eldhaf var að ræða og tók slökkvistarf ríflega þrettán klukkustundir. Húsið er gjörónýtt og verður rifið.
Eigandi hússins segist líta lífið öðrum augum eftir eldsvoðann og hvetur fólk til að kaupa sér reykskynjara. Fréttastofa hefur ekki náð tali af eigandanum í vikunni þrátt fyrir endurteknar tilraunir.