Donald Trump fráfarandi forseti gaf það út í gær að banninu yrði aflétt. Það var sett á til að hamla uppgangi kórónuveirunnar og í ljósi þess að veiran virðist enn í fullri sókn kom ákvörðun Trump mörgum á óvart.
Reglugerðin sem Trump vill afnema rennur þó ekki úr gildi fyrr en 26. janúar, sex dögum eftir að Biden hefur tekið við embætti, og segir talskona hans og verðandi upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Jen Psaki, að bannið verði framlengt áður en fresturinn rennur út.
„Þar sem faraldurinn er í sókn og meira smitandi afbrigði eru að ryðja sér til rúms víða um heim teljum við þetta ekki rétta tímann til þess að aflétta ferðatakmörkunum,“ sagði Psaki í færslu á Twitter.
With the pandemic worsening, and more contagious variants emerging around the world, this is not the time to be lifting restrictions on international travel.
— Jen Psaki (@jrpsaki) January 19, 2021
Þá sagði hún jafnframt að það stæði til hjá Biden að herða á ferðatakmörkunum og ýmsum aðgerðum sem miða að því að hefta veiruna.
Bannið sem nær til Schengen-ríkjanna og Bretlands hefur verið í gildi frá því í mars í fyrra en bann við komum farþega frá Brasilíu var sett á í maí.