Dóminn hlaut Þorlákur Fannar Albertsson fyrir tilraun til manndráps, alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu á síðasta ári. Önnur árásin var á leigusala hans í júní en hin á félaga hans þrítugsaldri í apríl. Þorlákur bar fyrir sig að hafa verið í geðrofi þegar hann réðst á fólkið. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Árásin á leigusala hans var á Langholtsvegi í Reykjavík. Þorlákur leigði íbúð af Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur í kjallara hússins og hafði aðeins verið þar í um tvær vikur þegar en árásin var gerð. Þá birtist hann í íbúð Herdísar Önnu af tilefnislausu vopnaður stórum hníf og sagðist ætla að drepa hana. Herdís hlaut ellefu stungusár í árásinni en í dómnum kemur fram að ákærði hafi reynt að að stinga hana ítrekað í höfuðið, háls og efri hluta líkama en henni tókst að sveigja sig undan hnífslaginu og bera hendur og fætur fyrir sig.
Í dómnum kemur fram að frá árinu 2004 hefur maðurinn hlotið sjö refsidóma fyrir umferðar-og fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot, tollalagabrot, umsboðssvik, hótun og líkamsárás. Þá var áréttað að hann væri sviptur ökuréttindum ævilangt.
Herdís Anna segir að þrátt fyrir dóminn í dag sé mörgum spurningum ennþá ósvarað.
„Maðurinn hafði nokkrum mánuðum áður ráðist á félaga sinn og svipt hann frelsi og það er lögregla sem kemur að því. Ég er hissa á að hann hafi ekki verið í gæsluvarðhaldi vegna þess máls,“ segir Herdís.
Kerfið brást
„Þetta þurfti ekki að eiga sér stað, þ.e. maðurinn var búinn að brjóta svo mikið af sér. Hann var orðinn svo hættulegur. Manni finnst að einhversstaðar í kerfinu hafi einhver átt að átta sig á því að maðurinn var stórhættulegur umhverfi sínu og sjálfum sér. Ég skil ekki að það hafi ekki verið til úrræði eða að úrræðum hafi ekki verið beitt til að hjálpa bæði honum, sem var á hræðilegri vegferð og mér og öðrum almennum borgurum,“ segir Herdís.
Hún telur að einhver hefði átt að láta sig vita af því að maðurinn var síbrotamaður.
„Ertu ekki einhvern tíma búinn að fyrirgera þeim rétti að fólkið í kringum þig sé þá ekki varað við,“ veltir Herdís fyrir sér.
Herdís segir að það hafi bjargað lífi sínu að hún sé vel á sig komin og hafi því tekist að verjast. Hún hefur ekki náð sér að fullu en ætlar ekki að láta deigan síga.
„Svona árás er gríðarlegt inngrip í líf manns en ég ætla ekki að láta þetta ráða lífi mínu. Mig langar að þessi reynsla mín verði til þess að við grípum fólk í samfélaginu áður en það veldur sér og öðrum stórtjóni. Ég ætla að berjast fyrir því. Þá vona ég að ég geti hjálpað þeim sem hafa lent í sambærilegum hlutum til að ná lífi sínu aftur á strik,“ segir Herdís að lokum.