Formaður körfuknattleiksdeildar KR, Böðvar Guðjónsson, vonast eftir meiri samvinnu innan félagana í körfuboltanum og að menn setji heiðursmannasamkomulag hversu margir erlendir leikmenn geta verið í hverju liði þegar boltinn fer af stað á nýjan leik í haust.
Böðvar hefur setið lengi í stjórn KR og fagnað á vorin síðustu sjö ár er KR hefur orðið Íslandsmeistari. Hann er hissa á því að önnur félög séu nú þegar byrjuð að semja við erlenda leikmenn þegar ekki er vitað hvernig staðan verður í efnahagslífinu í haust.
Böðvar fór yfir þetta og margt annað er hann var gestur hjá þeim Kjartani Atla og Henry Birgi í Sportinu í dag sem var á dagskrá Stöðvar 2 Sports í gær eins og alla aðra virka daga.
„Það er þeirra að gera það en jú ég er hissa á því. Ég hefði viljað sjá meiri samvinnu. Ég hefði gjarnan vilja formannafund strax eftir 4. maí sem við ætlum reyndar að boða til núna, bara til þess að heyra hljóðið í fólki og sjá hvort að við getum gert etthvað heiðursmannasamkomulag um hlutina,“ sagði Böðvar og fór frekar ofan í kjölinn á þessu.
„Þá sérstaklega varðandi fjölda erlenda leikmanna. Plús það að það er ömurlegt að hafa íslensku strákana okkar á tréverkinu með þrjá til fimm erlenda leikmenn inn á. Það er bara ekkert gaman.“
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.