Lífið samstarf

Hátíðarstund Fíladelfíu verður stafræn í ár

Fíladelfía

Hægt verður að fylgjast með hátíðarstund Fíladelfíu á Vísi og á heimasíðu kirkjunnar á morgun, aðfangadag klukkan 17.

„Í venjulegu árferði værum við með hátt í fimmhundruð manns hjá okkur á aðfangadagskvöld en það er ekki hægt í ár og því verðum við með útsendingu í staðinn,“ segir Aron Hinriksson, prestur hjá Fíladelfíu en hægt verður að horfa hér á Vísi á hátíðarstund kirkjunnar klukkan 17 á aðfangadag. Einnig verður hægt að fylgjast með útsendingunni á heimasíðu kirkjunnar og á facebook.

Aron Hinriksson prestur hjá Fíladelfíu 

„Þetta verður mjög hátíðleg og falleg stund. Hjá mörgum er það mikilvæg hefð að hefja jólin á því að fara í kirkju og núna er þetta það sem kemst næst því, að horfa á hátíðarstund í sjónvarpinu heima. Dagskráin er rétt um þrjú korter og verður lokið fyrir klukkan sex svo fólk getur notið messunnar og sest til borðs. Tónlistarfólk kirkjunnar mun koma fram og við vonum að landsmenn allir geti notið þess að horfa og hlusta á jólaboðskapinn fluttan.“

Á jóladag verður önnur útsending frá Fíladelfíu klukkan 17 með hátíðlegum blæ sem fylgjast má með á heimasíðu kirkjunnar.

„Við viljum óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og hvetjum alla til þess að huga að fólkinu í kringum sig og muna tilgang jólanna,“ segir Aron.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×