Skoðun

Látum hækkun frítekjumarka fjármagnstekna nýtast öllum

Haukur V. Alfreðsson skrifar

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með fréttum að nú stendur til að hækka frítekjumark fjármagnstekna frá 150þ.kr upp í 300þ.kr. Ekki eru allir sammála um ágæti þeirrar hugmyndar þar sem hér sé verið að veita hluta landsmanna aukinn stuðning frá ríkinu og að sá hópur sé sennilega sá sem þyrfti síst á ölmusu að halda. Persónulega er ég alveg sammála því. En ég sé hins vegar lausn sem útrýmir öllu misrétti sem kann að koma fram með þessari hækkun frítekjumarka fjármagnstekna án þess að snerta á breytingunni sjálfri. Lausnin er einföld:

Ónýttur skattafsláttur af fjármagnstekjum telst til ónýtts persónuafsláttar af launatekjum við árslok.

Það þýðir að einstaklingar sem hafa lægri fjármagnstekjur en frítekjumarkið segir til um, fá að nýta sér þann skattafslátt sem hefði hlotist af fjármagnstekjum til að lækka skattbyrði launatekna sinna. Launþegar munu þannig njóta jafngóðs af frítekjumarki fjármagnstekna og þeir sem hafa fjármagnstekjur.

Hér er því lausn sem deilir ekki á hvort í eðli sínu sé þörf á þessari hækkun frítekjumarka fjármagnstekna en sér samt til þess að hún nýtist svo gott sem öllum fullorðnum. Eina sem er ósvarað er þá hvort að ríkið hafa enn einu sinni ætlað að gera ákveðnum vildarvinum (fjármagnseigendum) hærra undir höfði eða sjái þarna góða lausn til að gæta sanngirnis og gera vel við alla.

Dæmi fyrir aukinn skilning:

Einstaklingur A hefur aflað tekna með störfum sínum yfir árið og greitt af þeim skatta samviskusamlega. Við yfirferð skattskýrslu sést að hann hafði engar fjármagnstekjur á árinu. Skatturinn eykur því persónuafslátt hans af launatekjum um 66.000kr (1) á árinu og kemst því að þeirri niðurstöðu að einstaklingur A hafi ofgreitt tekjuskatt um 66.000kr. Einstaklingur A fær því endurgreitt 66.000kr frá skattinum og er jafn vel settur og ef hann hefði haft hluta tekna sinna í formi fjármagnstekna og getað nýtt sér frítekjumark fjármagnsteknanna beint.

(1) Fjármagnstekjuskattur * frítekjumark fjármagnstekna = 22% * 300.000 = 66.000kr

Höfundur er viðskiptafræðingur og doktorsnemi í hagfræði




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×