Erlent

Varð að fresta fundi með drottningu á síðustu stundu vegna smits

Atli Ísleifsson skrifar
Minkamálið hefur reynst Mette Frederiksen og ríkisstjórn hennar erfitt.
Minkamálið hefur reynst Mette Frederiksen og ríkisstjórn hennar erfitt. EPA

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, varð að fresta fyrirhuguðum fundi sínum með Margréti Þórhildi Danadrottningu í Amalíuborg á síðustu stundu eftir að einn í fjölskyldu forsætisráðherrans hafði þá greinst með kórónuveiruna.

Danskir fjölmiðlar segja Frederiksen ekki hafa verið í beinum samskiptum við viðkomandi að undanförnu og því sé um varúðarráðstöfun að ræða.

Fundurinn átti að hefjast klukkan 11 að dönskum tíma, en þar hugðist hún kynna drottningu breytingar á ríkisstjórn sinni í kjölfar afsagnar Mogens Jensens landbúnaðarráðherra vegna minkamálsins svokallaða.

DR segir frá því að nú verði breytingarnar kynntar drottningunni í síma klukkan 14:30 að dönskum tíma, 13:30 að íslenskum tíma.

Alls var í raun reiðubúið þegar ákveðið var að fresta fundinum. Fulltrúar fjölmiðla voru mættir sem og ráðherrabílar með þeim Frederiksen og nýjum ráðherra. Tilkynning barst svo frá forsætisráðuneyti landsins klukkan 10:49 að fresta yrði fundinum.

Jensen greindi frá því í gær að hann hafi sagt af sér vegna ákvörðunar danskra stjórnvalda að ráðast í að lóga öllum minkum á minkabúum landsins vegna afbrigðis kórónuveiru, án þess að hafa til þess lagaheimild. Sagði Jensen að honum þætti ljóst að hann nyti ekki lengur stuðnings þingflokka – stuðnings sem væri nauðsynlegur til áframhaldandi starfa.

Ekki liggur fyrir hver eða hverjir taka við embættinu af Jensen. Hann var ráðherra matvælamála, landbúnaðar, sjávarútvegs og norrænnar samvinnu.

Dagen startede noget overraskende. Et familiemedlem er blevet testet positiv for corona. Måtte derfor udsætte besøget på...

Posted by Mette Frederiksen on Thursday, 19 November 2020



Fleiri fréttir

Sjá meira


×