Forstjórar Facebook og Twitter höfðu í vök að verjast á fundi dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag. Þingmenn Demókrataflokksins gagnrýndu fyrirtækin fyrir skort á aðgerðum gegn hatursorðræðu og svokallaðri upplýsingaóreiðu í tengslum við kosningarnar fyrr í mánuðinum.
Repúblikanar gagnrýndu Dorsey og Zuckerberg fyrir að ritskoða Donald Trump, fráfarandi forseta, og aðra íhaldsmenn. Sérstaklega þegar kemur að ásökunum Trumps og bandamanna hans um að umfangsmikið kosningasvindl hafi átt sér stað og hann hafi í raun unnið kosningarnar.
Twitter merkti um 300 þúsund tíst á milli 27. október og 11. nóvember á þann veg að þau væru misvísandi eða ósönn. Þar var um að ræða um það bil 0,2 prósent allra tísta um kosningarnar á því tímabili, samkvæmt Dorsey. Af þeim voru 456 einnig merkt með viðvörun um að búið væri að draga úr því hvernig hægt væri að dreifa þeim tístum.

Facebook greip til sambærilegra aðgerða vegna rúmlega 150 milljón færslna á samfélagsmiðlinum, eftir að þær voru skoðaðar af óháðum aðilum. Facebook bannaði einnig færslur sem sneru að því að rugla fólk í rýminu varðandi hvenær og hvar það ætti að kjósa.
Lindsay Graham, Repúblikani og formaður nefndarinnar, byrjaði fundinn á því að saka þá Dorsey og Zuckerberg um að ritskoða íhaldsmenn og sakaði fyrirtækin um að vilja stýra því hvað væri satt og hvað ekki. Þá gaf Graham í skyn að fella ætti niður reglur sem vernda samfélagsmiðlafyrirtæki fyrir lögsóknum vegna efnis sem birt er á miðlum þeirra.
Demókratar eru að miklu leyti sammála því að svipta fyrirtækin þessari lagavernd en gefa upp allt aðrar ástæður, eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar. Þeir hafa lagt áherslu á hatursorðræðu á samfélagsmiðlum og að orðræða þar geti og hafi leitt til ofbeldis í raunheimi.
Bæði Zuckerberg og Dorsey viðurkenndu að mistök hefðu verið gerð innan veggja fyrirtækjanna en stóðu þó vörð um stefnur þeirra í þessum málum.
Zuckerberg hefur áður sagt að verði umrædd regla felld niður, muni samfélagsmiðlafyrirtæki breyta skilmálum sínum verulega og ritskoða meira með því markmiði að komast hjá lögsóknum. Það sagði hann á öðrum þingnefndarfundi í síðasta mánuði.
Dorsey sagði á sama fundi að niðurfelling reglunnar myndi alfarið breyta því hvernig fólk tjáir sig á internetinu.