Tveir voru fluttir á slysadeild til skoðunar eftir harðan árekstur neðst í Ártúnsbrekku um klukkan 13:30 í dag. Hvorugur er talinn hafa slasast alvarlega, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, og fór þannig betur en á horfðist í fyrstu.
Annar árekstur varð í Ártúnsbrekkunni skömmu eftir hádegi, en þá á þeim hluta þar sem ekið er í austurátt. Seinni áreksturinn var mun harðari en sá fyrri en í því tilviki þurfti ekki að flytja neinn á sjúkrahús.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði skullu tveir bílar saman í seinni árekstrinum. Ökumenn beggja bíla voru fluttir til skoðunar á sjúkrahús en eru ekki taldir alvarlega slasaðir. Þó þurfti að beita klippum til að ná öðrum þeirra út. Engir farþegar voru í bílunum þegar áreksturinn varð.
Mikill viðbúnaður var á vettvangi slyssins. Loka þurfti fyrir umferð um Ártúnsbrekku í vestur, sem og frá Vesturlandsvegi um Höfðabakka inn í Grafarvog. Opnað var fyrir alla umferð á ný skömmu fyrir klukkan þrjú. Þá er vinnu viðbragðsaðila lokið á vettvangi en ekki hafa fengist upplýsingar um tildrög slyssins.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af vinnu viðbragðsaðila á vettvangi í Ártúnsbrekku.
Fréttin hefur verið uppfærð.