Innlent

Stúdentar við HÍ æfir vegna fyrirkomulags lokaprófa

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Háskóli íslands.
Háskóli íslands. Vísir/Vilhelm

Fjöldi lokaprófa við Háskóla Íslands, einkum á heilbrigðisvísindasviði, mun fara fram í formi staðprófs, sem krefst þess að nemendur mæti í persónu og sitji próf í kennslustofu, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu rektors um að lokapróf á þessari önn muni fara fram á netinu sem fjarpróf, nema í undantekningartilfellum. Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir verulegum vonbrigðum með þetta fyrirkomulag og krefst þess að skólinn bregðist við með sanngjarnari hætti.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, sendi nemendum póst þann 2. nóvember þar sem segir að próf muni fara fram á netinu nema í undantekningatilvikum, svo sem svokölluð samkeppnispróf og „tiltekin próf þar sem gæði námsmats og jafnræði nemenda verða ekki tryggð á netinu,“ líkt og það er orðað í bréfi rektors.

Heimilt sé að halda „samkeppnispróf, þýðingarmikil lokapróf og staðbundnar námslotur fyrir allt að 30 manns í vel loftræstum rýmum,“ en það verði undir hverju fræðasviði og deildum komið að ákveða í samráði við kennslusvið hvaða próf falla undir undanþáguákvæðið.

Meirihluti prófa á heilbrigðisvísindasviði í persónu

Í dag voru birtir listar yfir fyrirkomulag lokaprófa eftir deildum þar sem í ljós kemur að undanþáguákvæðið hafi verið nýtt í miklum mæli í sumum deildum skólans, einkum á heilbrigðisvísindasviði. „Ef við skoðum tölfræðina í þessu eru niðurstöðurnar sláandi. Heilbrigðisvísindasvið er með lang flest skrifleg próf eða 64%. Til samanburðar má nefna að Hugvísindasvið er með 1% skrifleg lokapróf og Félagsvísindasvið 5%,“ segir í yfirlýsingu frá hópi nemenda í lífeindafræði við HÍ sem send var meðal annars á rektor, menntamálaráðherra og fjölmiðla í dag.

„Þessar niðurstöður geta ekki talist boðlegar. Okkur þykir það afskaplega furðulegt að önnur svið innan Háskólans geti brugðist við breyttum aðstæðum og fundið nýjar lausnir til að þreyta lokapróf heima en okkar svið, Heilbrigðisvísindasvið sjái sér ekki fært að koma til móts við aðstæður samfélagsins,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

„Við höfum ekki mátt mæta í skólann í vetur og því þykir okkur óábyrgt og algjörlega úr takti að eiga svo að mæta í hópum til að þreyta lokaprófin. Einnig má nefna að aðstæður nemenda eru misjafnar og taka þarf tillit til þess að margir eru með undirliggjandi sjúkdóma, andlega og líkamlega, mismunandi fjölskylduaðstæður og annað slíkt sem stangast alfarið á við þetta að eiga að mæta inn í stærri hópa en tilmæli sóttvarnarteymisins kveða á um, og það rétt fyrir jól.“

Auk yfirlýsingarinnar frá nemendum í lífeindafræði hefur fréttastofu í dag borist fjölmargar ábendingar frá áhyggjufullum námsmönnum við HÍ sem eru óánægðir með fyrirkomulagið. Þess má geta að í fyrstu bylgju faraldursins í vor var ekki gert ráð fyrir að próf færu fram í húsakynnum háskólans.

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur jafnframt sent frá sér yfirlýsingu. „Það er ljóst á niðurstöðum könnunar Stúdentaráðs, á líðan og stöðu nemenda í námi, að aðstæður sökum COVID-19 séu að leggjast þungt á stúdenta og er mikill meirihluti þeirra að upplifa álag sem þau telja að hafi áhrif á námsframvindu sína,“ segir í yfirlýsingu SHÍ.

Ráðið hafi farið fram á að námsmatið verði endurskoðað og gagnrýnt reglugerð ráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Reglugerðin hafi að mati Stúdentaráðs tekið lítið sem ekkert tillit til stúdenta.

„Stúdentaráð hefur krafist þess að Háskóli Íslands bregðist við með sanngjörum hætti og telur viðbrögð þessi ekki fullnægjandi. Þrátt fyrir að faraldurinn komi í bylgjum er ekki boðlegt að neyða nemendur til að taka staðpróf og bjóða ekki upp á aðrar lausnir, einna helst þegar flest allt nám hefur verið rafrænt á misserinu,“ segir í yfirlýsingu Stúdentaráðs.

Erlendir nemar vilji komast heim

Þá er hafin undirskriftasöfnun þar sem erlendir námsmenn við Háskóla Íslands krefjast þess að boðið verði upp á að taka prófin rafrænt.

„Margir erlendir nemendur vilja fara til heimalanda sinna en eru fastir á Íslandi þar sem ekki hefur verið ákveðið hvort lokaprófin verði á netinu. Kostnaður vegna uppihalds á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í heiminum og eiga margir námsmenn erfitt með að hafa efni á því. Við biðjum Háskóla Íslands um að hafa öll prófin á netinu svo við getum yfirgefið landið og farið heim til fjölskyldna okkar og ástvina,“ segir í lýsingu með undirskriftasöfnuninni sem gerð er í nafni John B.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×