Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lítinn húmor fyrir atburðunum í Orlando, Flórída þar sem keppni í NBA-deildinni fer nú fram.
Leikmenn Milwaukee Bucks neituðu að mæta til leiks gegn Orlando Magic í fyrradag til að mótmæla skotárásinni á Jacob Blake í Kenosha, Wisconsin, heimaríki Milwaukee, á sunnudaginn.
Í kjölfarið var öðrum leikjum í NBA og í öðrum íþróttadeildum í Bandaríkjunum frestað. Jafnvel var rætt um að úrslitakeppnin í NBA yrði blásin af en nú stefnir allt í að hún haldi áfram.
Leikmenn NBA-deildarinnar hafa fengið mikið hrós fyrir að láta til sín taka í baráttunni gegn kynþáttamisrétti en Trump er á öndverðu meiði.
„NBA er eins og stjórnmálasamtök og það er ekki gott. Ég held að það sé ekki gott fyrir íþróttir eða þjóðina,“ sagði Trump og benti á að áhorfið á NBA væri ekki mikið.
„Ég veit ekki mikið um NBA en ég veit að áhorfstölurnar eru slæmar því ég held að fólk sé þreytt á NBA. Áhorfið hefur verið slæmt og það er miður.“
Flokksþingi Repúblikana lauk í gær með ræðu Trumps þar sem hann tók formlega við tilnefningu flokksins til forsetakosninganna. Trump fór hann mikinn í ræðu sinni í gær en fór ansi frjálslega með sannleikann.