Gul veðurviðvörun er nú í gildi um land allt vegna leysinga en snemma í fyrramálið tekur síðan gul viðvörun gildi á Breiðafirði, Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra vegna sunnanstorms.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands er spáð miklum hlýindum á landinu á morgun, sérstaklega á svæðinu frá Tröllaskaga og austur á Austfirði. Er möglegt að hitamet febrúarmánaðar falli.
Hæsti hiti sem mælst hefur í febrúar hingað til mældist á Eyjabökkum norðan Vatnajökuls 12. febrúar 2017 og náði hitinn þá 19,1 gráður.
Tölur upp á 17 til 18 gráður og jafnvel hærri gætu mælst á Austurlandi á morgun og eru Vopnafjörður, Seyðisfjörður og Neskaupsstaðir líklegir til að mælast hlýjustu staðirnir.
Veðurhorfur á landinu:
Sunnan 10-18 m/s og rigning eða súld, en úrkomuminna austanlands. Hiti 6 til 13 stig.Hvessir í nótt, sunnan og suðvestan 15-25 m/s í fyrramálið, hvassast í vindstrengjum á norðvestanverðu landinu. Áfram vætusamt sunnan og vestantil, annars þurrt að kalla. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast austanlands. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis á morgun og kólnar í veðri.
Á föstudag:
Vaxandi suðaustanátt með rigningu, 13-20 m/s síðdegis. Hægari vindur og þurrt að kalla norðanlands fram á kvöld. Hiti 4 til 10 stig.
Á laugardag:
Líkur á sunnan hvassviðri eða stormi um morguninn með rigningu eða slyddu, en þurrt norðaustantil á landinu. Lægir þegar kemur fram á daginn, sunnan 5-10 seinnipartinn með éljum eða slydduéljum á sunnanverðu landinu, en þurrt annarstaðar. Kólnandi veður, hiti kringum frostmark undir kvöld.
Á sunnudag:
Breytileg átt 3-8 og yfirleitt úrkomulaust, en norðan 8-15 og snjókoma á Vestfjörðum og með norðurströndinni. Frost 0 til 8 stig, mest inn til landsins.
Mikil hlýindi í kortunum og hitamet gætu fallið
