Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir stöðuna í Íran alvarlega og ljóst að hún sé ekki sprottin upp úr neinu tómarúmi. Það sé mikilvægt að alþjóðasamfélagið hvetji til stillingar svo ástandið stigmagnist ekki.
„Það er alveg vitað að Íranir hafa bæði ögrað og sömuleiðis verið með árásir, og við erum hér að tala um til dæmis á gamlársdag. Þú getur sagt árás eða ögrun varðandi sendiráð sem er auðvitað grafalvarlegur hlutur,“ sagði Guðlaugur Þór í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hann segir afstöðu Íslands í samræmi við afstöðu Norðurlandanna sem og Bretlands og Þýskalands.
„Þetta er nokkuð sem er búið að vera í gangi mjög lengi og Qassem Soleimani var hershöfðingi, hann var einn af forystumönnum íranska byltingarvarðarins sem fór í gegnum þetta þannig út frá þeim forsendum þá er það ekki þannig að þetta komi í einhverju tómarúmi.“
Hann vildi ekki svara því hvort aðgerðir Bandaríkjastjórnar væru skiljanlegar. Hann sagði stöðuna vera eins og hún er og Ísland væri ekki í neinu lykilhlutverki í því samhengi. Rödd landsins væri þó skýr varðandi von um frið og stillingu á svæðinu.