Bikarmeistarar Víkings R. hafa fengið knattspyrnumanninn Adam Ægi Pálsson frá Keflavík en fleiri félög í Pepsi Max-deildinni voru með hann í sigtinu.
Víkingar greindu frá félagaskiptunum í dag. Adam, sem er 22 ára, kemur til Víkings frá Keflavík þar sem hann hefur leikið tvö síðustu ár og staðið sig vel í Lengjudeildinni í sumar. Samningur hans við Keflavík gilti til loka þessa tímabils.
Víkingur hefur samið við Adam Ægi Pálsson, en hann kemur til liðsins frá Keflavík. Adam er fæddur árið 1998 og hefur gert góða hluti í Lengjudeildinni í sumar.
— Víkingur FC (@vikingurfc) August 11, 2020
Knattspyrnudeild Víkings er afar ánægð með að fá Adam til liðs við félagið!#VelkominnAdam pic.twitter.com/zxH66oErlj
Samkvæmt Fótbolta.net hafði Adam einnig fundað með FH-ingum áður en hann ákvað að fara í Fossvoginn.
Óvíst er enn hvenær keppni hefst að nýju í fótboltanum hér á landi en útlit er fyrir að það geti orðið um helgina. Næsti leikur Víkings er á dagskrá á sunnudag, gegn Breiðabliki, en liðin eru um mijða deild. Adam skilur við Keflavík í 3. sæti Lengjudeildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Leiknis R.