Tennisdrottningin Serena Williams mun feta í fótspor David Beckham á næstu misserum. Hún er ein þeirra frægru kvenna sem standa á bakvið nýtt knattspyrnulið NWSL-deildarinnar í Bandaríkjunum.
Beckham er í dag einn fjögurra eiganda bandaríska knattspyrnuliðsins Inter Miami sem leikur í MLS-deildinni. Það má því með sanni segja að Serena Williams sé að feta í fótspor David Beckhams, allavega að einhverju leyti.
Ásamt Serenu er fjöldinn allur af fyrrum landsliðskonu Bandaríkjanna í fótbolta og Hollywood-leikkonum á bakvið liðið. Þær Mia Hamm og Abby Wambach eru eflaust stærstu nöfnin af fyrrum landsliðskonum í fótbolta sem taka þátt. Þá eru Natalie Portman, Jennifer Garnar, Jessica Chastain og Eva Longoria allar þekktar fyrir leik sinn á hvíta tjaldinu.
Mia Hamm, Serena Williams, Natalie Portman, Abby Wambach and more are among the owners of a new L.A. NWSL franchise that will join the league in 2022
— B/R Football (@brfootball) July 21, 2020
Liðið verður staðsett í Los Angeles og stefnt er að því að það muni koma inn í deildina árið 2022.
„Íþróttir eru góð leið til að fá fólk til að standa saman og þetta gæti haft jákvæð áhrif á íþróttakonur í samfélaginu okkar,“ sagði Natalie Portman um stofnun liðsins.
Portman var einnig í ítarlegu viðtali á íþróttamiðlinum The Athletic þar sem hún svaraði hinum ýmsu spurningum varðandi liðið.
Nafn liðsins hefur ekki enn verið opinberað en hópurinn sem stendur á bakvið liðið kallar sig „Angel City“ eða Borg Englanna. Eflaust tilvísun í Los Angeles sem gengur einnig undir því nafni. Þá er enn óvíst hvar liðið mun spila.
Actress Natalie Portman, tennis star Serena Williams and her daughter Alexis Olympia Ohanian are part of a majority woman-founded group that will own the newest soccer team in the United States https://t.co/AfocTOBo9V
— CNN (@CNN) July 21, 2020
Sem stendur er ekkert kvennalið staðsett í Kaliforníu-fylki og því ætti þetta að reynast mikil lyftistöng fyrir kvennaknattspyrnu í fylkinu sem og Bandaríkjunum í heild sinni.