Selfoss vann í gærkvöld annan leikinn í röð í Pepsi Max deild kvenna. Svo virðist sem liðið sé komið á beinu brautina eftir erfiða byrjun á mótinu.
Síðasta sumar vann Selfoss sinn fyrsta bikarmeistaratitil frá upphafi. Var liðið styrkt til muna í vetur og yfirlýst markmið fyrir sumarið var að vera í toppbaráttu deildarinnar.
Þær hófu svo sumarið af krafti með 2-1 sigri á Íslandsmeisturum Vals í Meistarakeppni KSÍ.

Í kjölfarið fylgdu tveir tapleikir gegn Fylki og Breiðabliki. Það verður seint talinn heimsendir að tapa þeim leikjum en Fylkir hafði fram að þeim tímapunkti unnið alla leiki sína á árinu. Þá er Breiðablik ógnarsterkt.
Þó svo að Selfoss hafi tapað leikjunum með markatölunni 3-0 þá fékk liðið vítaspyrnu undir lok leiks gegn Fylki sem hefði tryggt þeim stig á erfiðum útivelli í Árbænum. Þá skoruðu Blikar tvívegis eftir löng innköst – í upphafi og undir lok leiks – en það er eitthvað sem ætti að vera hægt að koma í veg fyrir.
Eftir töpin tvö var hins vegar alveg ljóst að Selfoss mátti ekki við öðru tapi enda ekkert lið orðið Íslandsmeistari á þessari öld með fleiri en tvö töp.
Sjá einnig: Eitt tap í viðbót og draumar um Íslandsmeistaratitil eru úr sögunni
Liðið svaraði með nokkuð þægilegum 2-0 sigri á FH í 3. umferð. Í gær var Stjarnan svo lögð af velli í Garðabænum, lokatölur 4-1 Selfyssingum í vil. Þarna er um að ræða tvo útileiki sem gætu reynst toppliðum deildarinnar erfiðir í sumar.
Tveir sigrar í röð og Selfoss er komið í 4. sæti deildarinnar. Í stað þess að mæta KR eftir fjóra daga þá fær liðið níu daga frí þangað til það mætir Stjörnunni aftur í bikarnum.

Eins og alþjóð veit kom upp kórónusmit í Pepsi Max deild kvenna nýverið og því hefur þurft að fresta leikjum Fylkis, Breiðabliks og KR um rúmlega tvær vikur. Hvaða áhrif það mun hafa á eftir að koma í ljós en þegar öllu er á botninn hvolft gæti það hjálpað Selfyssingum að blanda sér í toppbaráttu deildarinnar.
Liðið heimsækir nýliða Þróttar í því sem er næsta heila umferð deildarinnar 14. og 15. júlí. Á sama tíma mætast Valur og Fylkir, tvö af þeim liðum sem eru fyrir ofan Selfoss í töflunni. Svo í umferðinni eftir það mætir Þór/KA á Selfoss en á sama tíma mætast Valur og Breiðablik – sem eru bæði með fullt hús stiga- á Kópavogsvelli.
Falli úrslitin Selfyssingum í hag er aldrei að vita en liðið verði komið í toppbaráttuna innan tíðar.