Tala látinna í kórónuveirufaraldrinum í Bretlandi er nú komin yfir 47.000 og nálgast svartsýnustu spár stjórnvalda. Aðstoðarráðherra í málefnum Skotlands sagði af sér í dag vegna viðbragða ríkisstjórnarinnar við uppljóstrunum um að nánasti ráðgjafi Boris Johnson forsætisráðherra hefði brotið gegn fyrirmælum yfirvalda um að fólk héldi sig heima.
Samkvæmt tölum Hagstofu Bretlands höfðu 42.173 látist á Englandi og Wales vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur, 15. maí. Fjöldinn nær 47.343 þegar talin eru með fyrri tölfræði frá Skotlandi, Norður-Írlandi og sjúkrahúsum á Englandi undanfarið. Reuters-fréttastofan segir að fjöldi dauðsfalla sé engu að síður vanmetinn.
Aðalvísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar sagðist telja að 20.000 dauðsföll í faraldrinum yrði „góð útkoma“ í mars. Verstu spár ríkisstjórnarinnar hljóðuðu upp á um 50.000 dauðsföll í apríl.
Ríkisstjórn Johnson liggur undir harðri gagnrýni vegna viðbragðanna við faraldrinum. Hún kom á takmörkunum til að hefta útbreiðslu veirunnar síðar en mörg önnur Evrópuríki.

Segir af sér vegna óánægju með gjörðir Cummings
Undanfarna daga hefur þrýstingurinn á ríkisstjórnina enn aukist eftir að upp komst að Dominic Cummings, aðalráðgjafi Johnson, ferðaðist hundruð kílómetra frá London til að koma barni í pössun hjá foreldrum sínum á sama tíma og stjórnvöld brýndu fyrir almenningi að yfirgefa ekki heimili sín í lok mars. Cummings segist hafa gert það vegna þess að hann og konan hans voru mögulega smituð af veirunni. Skömmu síðar veiktist Johnson forsætisráðherra heiftarlega.
Málið hefur vakið upp spurningur um hvort aðrar reglur gildi fyrir æðstu ráðamenn en fyrir almenning. Hópur þingmanna Íhaldsflokksins er á meðal þeirra sem kröfðust afsagnar Cummings um helgina. Johnson og fleiri ráðherrar hafa aftur á móti varið Cummings með kjafti og klóm og haldið því fram að ráðgjafinn hafi aðeins fylgt „föðureðli“ sínu.
Cummings þvertók fyrir að hann ætlaði að segja af sér á blaðamannafundi í gær. Taldi hann sig ekki hafa gert neitt rangt. Skýringar hans á ferðalaginu hafa þó verið dregnar í efa í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Í kjölfarið tilkynnti Douglas Ross, aðstoðarráðherra ríkisstjórnarinnar í málefnum Skotlands, um afsögn sína. Í yfirlýsingunni sagðist hann samþykkja skýringar Cummings um að hann hafi gert það sem hann taldi fjölskyldu sinni fyrir bestu.
„Hins vegar voru þetta ákvarðanir sem margir aðrir töldu að stæðu þeim ekki til boða,“ sagði Ross sem vísaði til kjósenda í kjördæmi sínu sem hefðu ekki fengið að kveðja ástvini eða heimsækja veika ættingja vegna fyrirmæla stjórnvalda.
„Ég get ekki sagt þeim í góðri trú að þau hafi öll haft á röngu að standa en einn háttsettur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hafi haft á réttu að standa,“ sagði Ross sem var ósáttur við að Johnson hefði ekki látið Cummings taka poka sinn.
