Hin japanska Hana Kimura er látin aðeins 22 ára að aldri. Kimura var upprennandi glímustjarna og kom fram í japönsku raunveruleikaþáttunum Terrace House á Netflix.
Dánarorsök hefur ekki verið gefin út en skömmu fyrir andlát sitt hafði Kimura birt færslur á samfélagsmiðlum sem gáfu í skyn að hún hefði orðið fyrir neteinelti að því er fram kemur á vef BBC. Við síðustu mynd sína sem hún birti á Instagram á föstudag skrifaði hún einfaldlega „bless“.
Þá birti hún einnig færslur á Twitter-síðu sinni á föstudag þar sem mátti sjá myndir af sjálfskaða og skilaboð þar sem hún sagðist ekki vilja vera manneskja lengur.
„Það var líf þar sem ég vildi vera elskuð. Takk allir, ég elska ykkur. Bless.“
Kimura hafði unnið Fighting Spirit verðlaunin árið 2019 og tók líkt og áður sagði þátt í raunveruleikaþáttunum Terrace House, þar til tökum á þáttunum var frestað vegna kórónuveirunnar. Þættirnir fylgja eftir þremur konum og þremur körlum á meðan þau búa saman í einu húsi.
Glímublaðamaðurinn Adam Pacitti minntist Kimura á Twitter-síðu sinni og sagði andlát hennar vera harmleik. Hann biðlaði til fólks að sýna náungakærleik og sagði þetta vera erfiða áminningu um það að skilaboð á samfélagsmiðlum geti haft alvarleg áhrif á geðheilsu annarra.
The death of Hana Kimura is an absolute tragedy. I hope this serves as a reminder that interactions on social media can have a serious effect on the mental health of anyone, no matter who they are. Be kind. RIP.
— Adam Pacitti (@adampacitti) May 23, 2020